Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, talaði um „bankabófa“ í viðtali árið 2011 og það lýsti afstöðu hans til stjórnenda íslensku bankanna að mati Hæstaréttar Íslands. Þetta er meðal ástæðna þess að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að Ásgeir Brynjar hefði verið vanhæfur til að vera meðdómsmaður í Marple-málinu svokallaða, þar sem fyrrverandi stjórnendur Kaupþings eru meðal sakborninga.
Því þarf að taka málið aftur fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur, sem hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Skúli Þorvaldsson fjárfestir skyldu dæmdir í sex mánaða fangelsi og að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, skyldi dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Héraðsdómur sýknaði Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans. Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla. Málið var höfðað á þeim forsendum að þetta hefði verið gert án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.
Verjendur sakborninga týndu ýmis ummæli Ásgeirs Brynjars, meðal annars á bloggi Egils Helgasonar, og deilingar á samfélagsmiðlum til máli sínu til stuðnings. Þá var einnig fundið að því að hann væri stjórnarmaður í félaginu Gagnsæi, samtökum gegn spillingu.
Hæstiréttur segir að þátttaka hans í slíku félagi geti ekki ein og sér leitt til þess að hann teljist vanhæfur. Hann hafi einnig látið frá sér ummæli sem hafi verið almenns eðlis og ekki beinst sérstaklega gegn stjórnendum Kaupþings, bæði á bloggi Egils Helgasonar og í grein í Fréttablaðinu.
„Á hinn bóginn hefur meðdómsmaðurinn ítrekað á samskiptamiðlum tekið upp fréttir af dómsmálum gegn stjórnendum A hf. [Kaupþing] og birt mynd meðal annars af ákærðu Y [Hreiðar Már Sigurðsson] og Z [Magnús Guðmundsson] við frásögn um sakfellingu þeirra í dómsmáli. Þær tilgreiningar verða ekki skildar á annan veg en þann, að meðdómsmaðurinn lýsi yfir stuðningi við það, sem fram kom í því efni sem hann tekur upp. Þá lýsir tal hans um ,,bankabófa“ sem hann viðhafði á árinu 2011 afstöðu hans til stjórnenda bankanna, þar með talið ákærðu,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.
Sum ummæli Ásgeirs Brynjars hafi sýnt „eindregna afstöðu meðdómsmannsins til stjórnenda bankanna,“ meðal annars þeirra Hreiðars Más og Magnúsar sérstaklega.
Samkvæmt því sem fram kemur í dómi Hæstaréttar var í að minnsta kosti einhver skipti eingöngu um að ræða tilvik þar sem Ásgeir Brynjar „merkti við“ ummæli á Twitter eða Facebook, eða deildi fréttum án þess að segja nokkuð um þær. „Ummæli og afstaða í garð stjórnenda bankanna verður einnig að meta í ljósi almennrar afstöðu meðdómsmannsins og yfirlýstra áhugamála hans.“