Endurupptökunefnd hefur heimilað að mál gegn fimm sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði tekin upp aftur. Þetta kemur fram í úrskurðum nefndarinnar, sem voru birtir klukkan tvö í dag.
Öll málin sem snúa að dómum fyrir að hafa orðið Guðmundi og Geirfinni að bana má taka upp á nýjan leik fyrir Hæstarétti. Hins vegar var beiðni um endurupptöku í máli Erlu Bolladóttur hafnað, sem og hvað varðar sakfellingu Kristjáns Viðars Júlíussonar og Sævars Ciesielski fyrir rangar sakargiftir.
Taka má upp málin gegn Kristjáni Viðari Júlíussyni, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni, sem voru dæmdir fyrir að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Þá er fallist á endurupptöku dóms vegna sakfellingar Alberts Klahn Skaftasyni, sem var sakfelldur fyrir að hafa aðstoðað við að koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað.
Þá var fallist á endurupptöku gagnvart Guðjóni Skarphéðinssyni, Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Marinó Ciesielski, sem voru dæmdir fyrir að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana.
Bæði Sævar og Tryggvi Rúnar eru látnir. Það eru erfingjar þeirra sem fóru fram á endurupptöku fyrir þeirra hönd.
Í niðurstöðu endurupptökunefndar í máli Sævars kemur meðal annars fram að ætla megi að niðurstaða Hæstaréttar hefði verið önnur ef þær upplýsingar og þau gögn sem nú liggja fyrir hefðu legið fyrir við upphaflega meðferð málsins og farið hefði verið að lögum við rannsókn og meðferð þess. Því beri að endurupptaka málið í samræmi við beiðni endurupptökubeiðenda.
Úrskurðirnir frá endurupptökunefnd eru hér á eftir.
Guðmundarmál:
Gagnvart dómfelldu Kristjáni Viðari Júlíussyni, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni er fallist á endurupptöku dóms Hæstaréttar vegna sakfellinga fyrir brot á 218. og 215. gr. almennra hegningarlaga, um að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana 27. janúar 1974.
Gagnvart dómfellda Alberti Klahn Skaftasyni er fallist á endurupptöku dóms Hæstaréttar vegna sakfellingar hans fyrir eftirfarandi hlutdeild í brotum annarra dómfelldu með því að veita þeim liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað og þannig leitast við að afmá ummerki brotsins.
Geirfinnsmál:
Gagnvart dómfelldu Guðjóni Skarphéðinssyni, Kristjáni Viðari Júlíussyni og Sævari Marinó Ciesielski er fallist á endurupptöku dóms Hæstaréttar vegna sakfellinga fyrir brot á 218. og 215. gr. almennra hegningarlaga, um að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana aðfaranótt 20. nóvember 1974.
Rangar sakargiftir:
Hafnað er beiðni um endurupptöku dóms Hæstaréttar hvað varðar sakfellingu Erlu Bolladóttur, Kristjáns Viðars Júlíussonar og Sævars Marinós Ciesielski fyrir brot á 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa borið þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum.