Vitni sem gaf sig fram við lögreglu fyrir nokkrum árum síðan sagði frá því að fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi ekið á Guðmund Einarsson kvöldið sem hann hvarf í janúar 1974. Hún greindi einnig frá því að hún hafi verið viðstödd þegar þessi sami maður hafi samið við lögregluna og fulltrúa yfirsakadómara um að veita upplýsingar um það að Kristján Viðar Viðarsson og Sævar Marínó Ciesielski hafi tengst hvarfi Guðmundar, gegn því að vera leystur úr afplánun.
Þetta kemur fram í úrskurði endurupptökunefndar í máli Sævars, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu í dag að heimila ætti að dómur gegn honum og fjórum öðrum sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu yrði tekinn upp að nýju. Úrskurðirnir eru gríðarlega langir og umfangsmiklir, sá um Sævar telur tæplega 1300 blaðsíður.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi ríkissaksóknara orðsendingu vegna konunnar þann 9. október árið 2014. Konan var fyrrverandi sambýliskona manns, sem bendlaði Sævar og Erlu Bolladóttur upphaflega við póstsvikamálið svokallaða, en það var ástæða þess að þau voru upphaflega handtekin og sett í gæsluvarðhald.
Konan sagði frá því að hún hefði verið farþegi í bíl sem sambýlismaður hennar þáverandi keyrði, ásamt þriðja manni, þegar ekið hafi verið á Guðmund Einarsson í Engidal á Hafnarfjarðarvegi aðfaranótt 27. janúar 1974. „Guðmundur hafi verið tekinn upp í bifreiðina en svo dregið af honum og hann verið orðinn þögull þegar vitnið fór úr bifreiðinni á dvalarstað þess í Vogahverfi Reykjavíkurborgar,“ segir í úrskurðinum.
Þessi ábending var rannsökuð af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið sumar. Konan rakti þessa atburðarrás hér að ofan í samskiptum við lögreglu í kjölfarið en bar jafnframt um það að hafa verið viðstödd þegar maðurinn hafi samið við lögregluna og fulltrúa yfirsakadómara um að veita upplýsingar um að Kristján Viðar og Sævar tengdust hvarfi Guðmundar gegn því að vera leystur úr afplánun.
Mennirnir tveir sem um ræðir, Stefán Almarsson og Þórður Jóhann Eyþórsson, voru handteknir í júní í fyrra, eins og greint var frá í fjölmiðlum þá. Þeir neituðu báðir allri aðild að málinu, bæði hjá lögreglu og í fjölmiðlum. Stefán sagði lögreglu að hann hefði á þessum tíma verið sífellt að ljúga í lögregluna sögum.
Þá komu bæði annar rannsóknarlögreglumannanna sem annaðist póstsvikamálið og Guðmundarmálið í upphafi og fyrrum fulltrúi yfirsakadómara til lögreglu vegna málsins. Þeir hafi verið inntir eftir því hvaða einstaklingur hafi komið þeim upplýsingum til lögreglu að Sævar hafi verið viðriðinn hvarf Guðmundar. „Þeir hafi ekki munað eftir því og hafi aðspurðir hvorugur kannast við að þessi maður hafi komið ábendingu á framfæri við þá eða munað til þess að samið hafi verið við manninn um tilhliðranir varðandi afplánun hans.“
Rannsókn lögreglunnar lauk þann 18. ágúst í fyrra og málið var fellt niður í kjölfar þess að rannsóknargögnum var komið á framfæri við endurupptökunefnd, í október síðastliðnum.
Var sleppt úr fangelsi í tvígang
Þetta teljast engu að síður meðal nýrra gagna í málinu, sem lúta beint að hvarfi Guðmundar og veita vísbendingu um það á hvaða hátt böndin bárust að þeim dæmdu.
Fyrr í úrskurðinum kemur fram að þessi umræddi maður strauk af Litla-Hrauni ásamt Kristjáni Viðari þann 11. nóvember 1975, þar sem þeir voru báðir í afplánun. Sagt er frá því í úrskurðinum að Kristján Viðar hafi sagt honum frá aðild Erlu og Sævars að póstsvikamálinu. „Í kjölfar stroksins og frásagnar af aðild þeirra dómfelldu Erlu og endurupptökubeiðanda [Sævars] að svikunum var afplánun mannsins af eins árs refsidómi frestað að fyrirmælum fulltrúa yfirsakadómara 11. desember 1975,“ segir í úrskurðinum. Degi síðar, 12. desember, var Sævar handtekinn og settur í gæsluvarðhald, og þann 13. desember var Erla handtekin og sett í gæsluvarðhald.
Þann 18. desember var Erla yfirheyrð og játaði þann dag aðild að póstsvikamálinu. Samkvæmt skriflegri skýrslu lauk yfirheyrslunni klukkan 19.30, en dagbók fangelsisins við Síðumúla segir aðra sögu. Þær dagbækur voru ekki í heild sinni lagðar fyrir á sínum tíma. Þar kemur fram að yfirheyrslur hafi staðið til klukkan 22:30, en engin skýrsla liggur fyrir um það sem fram fór eftir að bókaðri skýrslu lauk.
Sama dag klukkan þrjú var umræddur maður fluttur í fangelsið vegna innbrots í fiskiskip. Það er bókað í samantektarskýrslu um það innbrot að maðurinn hafi átt að fara í afplánun á eftirstöðvum refsingar en þess í stað hafi hann verið látinn laus daginn eftir „að boði fulltrúa yfirsakadómara.“ Hann hafi þá verið búinn að játa innbrotið. Honum var boðið að fljúga austur á firði að boði fulltrúa yfirsakadómara, en engar skýringar voru gefnar á þeirri ákvörðun.
Þetta var 19. desember 1974, en þann 20. desember var Erla tekin til skýrslutöku enn á ný, en þá sem vitni vegna þess að lögreglunni hafði boris til eyrna að Sævar, þáverandi sambýlismaður hennar, gæti hafa verið viðriðinn hvarf Guðmundar Einarssonar. „Um er að ræða fyrstu formlegu lögregluskýrsluna sem gerð var vegna gruns um aðild allra dómfelldu að hvarfi Guðmundar sem hratt rannsókn málsins úr vör.“
Þó oft hafi verið um það fjallað, og „nafn þessa manns ítrekað borið á góma í tengslum við Guðmundarmálið“, hefur aldrei opinberlega verið upplýst um upphaf þess að grunur í Guðmundarmálinu beindist að þeim sem síðar voru ákærð og dæmd, að því er segir í úrskurðinum.
Fyrir liggur að þessi maður veitti lögreglu upplýsingar sem leiddu til þess að Erla og Sævar játuðu sakir í póstsvikamálinu. Í úrskurðinum segir: „Þegar horft er til þess og að sami maður var handtekinn í kjölfar innbrots í bát og færður í Síðumúlafangelsi, sama dag og dómfellda Erla virðist fyrst hafa verið yfirheyrð um hvarf Guðmundar Einarssonar, þykja talsverðar líkur leiddar að því að rannsókn á hvarfi Guðmundar hafi verið beint að dómfelldu á grundvelli upplýsinga frá nefndum manni.“