Endurupptökunefnd hefur heimilað að mál Sævars Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar verði tekin til dóms að nýju. RÚV greinir frá þessu, en endurupptökunefnd mun birta úrskurði sína klukkan tvö í dag.
Sævar og Tryggvi Rúnar voru dæmdir fyrir aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980. Sævar var dæmdur í sautján ára fangelsi fyrir þátt í hvarfi og dauða bæði Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. Tryggvi Rúnar var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir aðild að hvarfi og dauða Guðmundar.
Bæði Sævar og Tryggvi Rúnar eru látnir. Fjórir aðrir voru dæmdir í Hæstarétti árið 1980, en endurupptökunefnd hefur haft mál allra sex til umfjöllunar undanfarin ár. Úrskurðir nefndarinnar í málum allra sex verða birtir seinna í dag.