Minnkandi aðsókn í kennaranám við bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri er alvarleg vísbending um yfirvofandi kennaraskort hér á landi. Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nógu marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem segir einnig að stjórnvöld hafi ekki hugað nægilega vel að dvínandi aðsókn í kennaranám og aðsteðjandi hættu á kennaraskorti.
Á tímabilinu 2009 til 2016 fækkaði nýnemum í kennaranám HÍ og HA úr 440 í 214, og í heild fækkaði skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna úr 1.925 í 1.249. „Auk kennaraskorts getur fækkun kennaranema haft í för með sér minni möguleika á sérhæfingu í kennaranámi og þar með einsleitari menntun þeirra. Það getur aftur á móti leitt til minni gæða í skólastarfi og haft slæm áhrif á námsárangur barna og unglinga,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar segir þó einnig að miðað við markmið mennta- og menningarmálaráðuneytis í frumvarpi til fjárlaga í ár megi binda vonir við að gripipð verði til aðgerða til að bregðast við þessu vandamáli.
Bara þriðjungur í leikskólum menntaður
Skortur á menntuðum kennurum er sérstaklega áberandi í leikskólum, og hefur verið um langt skeið, segir Ríkisendurskoðun. Um þriðjungur stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum er nú skipaður leikskólakennurum, en samkvæmt lögum eiga það að vera að lágmarki tveir af hverjum þremur.
Bent er á það að í desember 2015 hafi 1.758 menntaðir leikskólakennarar starfað í leikskólum, en 2.992 leyfisbréf hafa verið gefin út til þeirra frá árinu 2009. Því er ljóst að fjölmargir leikskólakennarar starfa ekki við fagið. Þá er einnig talið að helmingur menntaðra grunnskólakennara sé við störf í grunnskólum landsins. „Þessar síðastnefndu tölur sýna að kennaraskortur verður ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema. Mikilvægt er að laða menntaða kennara, ekki síst hina yngri, til starfa við skólana og búa þannig um hnútana að þeir endist í starfi.“
Vísbendingar eru um að lenging kennaranámsins úr þremur árum í fimm hafi dregið úr aðsókninni í námið. Ríkisendurskoðun finnur að því að ekki sé búið að þróa opinbera mælikvarða til að meta kostnað og skilvirkni háskólakennslu, þrátt fyrir hvatningu Ríkisendurskoðunar þar um. Af opinberum gögnum má þó ráða að árið 2015 hafi hver brautskráður nemandi með fimm ára kennsluréttindanám að baki kostað ríkissjóð að lágmarki 4,3 milljónir króna. Hins vegar er staðan þannig að margir ljúka náminu á lengri tíma en fimm árum og nokkur hluti hættir námi, því var raunkostnaður mun meiri. „Að mati Ríkisendurskoðunar er afar mikilvægt að auka skilvirkni kennaradeildanna með því að draga úr brotthvarfi nemenda og stuðla að auknum námshraða þeirra. Slíkt má þó ekki bitna á gæði námsins.“
Lág hlutfall brautskráist
Aðeins 55% grunnnema í kennaranámi við HÍ hélt áfram á annað ár námsins árin 2013 til 2015 en hlutfallið var 65% hjá HA. Þetta snýst við þegar horft er til framhaldsnáms, þar sem 65% héldu áfram á annað ár í HA en 75% við HÍ. Árin 2012 til 2016 luku aðeins 49 prósent nemenda kennaradeildar HÍ grunnnámi í kennslufræðum á þremur árum, en 71 prósent nemenda HA. 62% í HÍ luku framhaldsnámi á réttum tíma, tveimur árum, en 66% hjá HA. Háskólinn á Akureyri telst því skilvirkari en Háskóli Íslands að þessu leyti.
Ríkisendurskoðun beindi því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að marka skýra stefnu um eflingu kennaramenntunar til að koma í veg fyrir aðsteðjandi kennaraskort í landinu, og stuðla að auknum gæðum kennslu á öllum stigum. Þá verði skólarnir að leitast við að fjölga nemendum og auka skilvirkni í kennaranáminu.