Traust almennings til embættis forseta Íslands stóreykst milli mælinga Gallup. 83 prósent Íslendinga bera mikið traust til forseta Íslands, sem er aukning um 26 prósentustig milli ára.
Sem fyrr ber almenningur mest traust til Landhelgisgæslunnar, en 92 prósent segjast bera mikið traust til gæslunnar. Traust til lögreglunnar hefur aukist töluvert milli ára, eða 11%, og segjast nú 85 prósent bera mikið traust til lögreglunnar.
Forseti Íslands er í þriðja sæti yfir þær stofnanir samfélagsins sem almenningur ber mikið traust til, en Háskóli Íslands er í fjórða sæti. 76 prósent Íslendinga segjast bera mikið traust til HÍ.
62 prósent bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, sem er töluverð hækkun milli ára, um 16 prósentustig. Í fyrra mældist traustið töluvert lægra en árin þar á undan. Sömu sögu er að segja um mælingar á trausti til dómskerfisins, sem lækkuðu töluvert í fyrra, en traust á dómskerfið hefur aukist um ellefu prósentustig milli ára. 43 prósent segjast nú bera mikið traust til þess.
Þriðjungur landsmanna ber mikið traust til Seðlabanka Íslands, fjórum prósentustigum meira en í fyrra, en 19 prósent bera traust til Fjármálaeftirlitsins, þremur prósentustigum minna en í fyrra. Traust á bankakerfið mælist lítillega meira en í fyrra, og er í 14 prósentum, lægst allra stofnana.
Traust til Alþingis hefur aukist um fimm prósentustig milli ára, en 22 prósent Íslendinga segjast bera mikið traust til löggjafarsamkomunnar. Alþingi er komið upp fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, sem stendur í stað með 19% traust.
Af öðrum stofnunum samfélagsins, sem mældar voru, hefur umboðsmaður Alþingis hefur mikið traust 51% þjóðarinnar og ríkissaksóknari hefur mikið traust hjá 50%. 48 prósent treysta ríkissáttasemjara mikið og traust til embættis umboðsmanns skuldara er 22 prósent.
Spurt var hversu mikið eða lítið traust fólk bar til viðkomandi stofnana. Könnunin var hluti af netkönnun sem Gallup gerði dagana 9. til 21. febrúar, heildarúrtak var 1.411 manns og þátttökuhlutfallið 59,8 prósent.