„Það er að verða kynslóðabreyting sem færir okkur aukið jafnrétti,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í ítarlegu viðtali í bókinni Forystuþjóð, sem kom út á dögunum en höfundar hennar eru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, fjölmiðlakona og dagskrárgerðarmaður, og Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka og fyrrverandi aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins.
Í bókinni er rætt við fólk víða að úr samfélaginu sem hefur innsýn í íslenskt samfélag úr ólíkum áttum, og er rauði þráðurinn jafnrétti kynjanna og staða þeirra mála hér á landi.
Þorsteinn Már er einn þeirra sem deilir sinni sýn á stöðu jafnréttismála. Hann segir það hafa verið gæfuspor að setja í lög kynjakvóta hjá stjórnum fyrirtækja á skráðum hlutabréfamarkaði og það sama megi segja um stjórnmálin. Mikilvægt sé að á þessum formlega vettvangi sé umgjörð sem ýti undir jafnrétti. „Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að í stjórnum fyrirtækja á hlutabréfamarkaði og í stjórnmálum er ekkert að því að hafa kynjakvóta til að laga hlutföll kvenna og karla. Stjórnmálaflokkar reyna að hafa jöfn hlutföll á listum sínum, þú býður fólki ekki upp á neitt annað í dag, það er mín skoðun.“
„Eins er með félög á markaði. Þar var það skref fram á við að setja kynjakvóta á stjórnir þeirra. Munurinn hjá okkur á Íslandi er hinsvegar sá að við þurfum alltaf að fara skrefinu lengra en margir aðrir. Við setjum lög og reglur en bætum svo um betur svo við göngum örugglega lengst. Í Noregi, sem við líkjum okkur oft á tíðum við, gilda kynjakvótar um félög á markaði og félög í opinberri eigu en ekki um hlutafélög sem ekki eru á markaði. Hér á landi gilda kynjakvótar um öll hlutafélög og einkahlutafélög. Ég styð það að félög á markaði með fjölbreyttan eigendahóp séu með kynjakvóta og styð það heils hugar en ég set spurningamerki við hitt,“ segir Þorsteinn Már.
Ein besta leiðin til jafnréttis er aukið aðgengi að námi að mati Þorsteins Más. Hann segir að námið styrki ungt fólk sem sé mun öruggara en eldri kynslóðir. Það sé því ekki hægt að setja ólíka aldurshópa undir sama hatt þegar rætt er um jafnréttismál. „Mér finnst miður hvernig við tölum okkur oft niður þegar við erum að bera okkur saman við aðra. Við höfum tekið stór skref í jafnréttismálum og staðið okkur vel á mörgum sviðum. Við getum borið okkur saman við önnur lönd og séð að möguleikar fólks til að fara út á vinnumarkað eftir að hafa eignast barn eru yfirleitt betri hér.“
„Leikskólar fyrir yngstu börnin og allt okkar kerfi í kringum þau er gott. Þetta hefur haft þau áhrif að konur eru núna í meirihluta í mjög mörgum greinum í háskólanum, sem er skref fram á við. Það er ekki réttmætt að líta alltaf til fortíðar. Við erum að gera betur núna og það er það sem skiptir máli. Það er miklu erfiðara að komast í nám í öðrum löndum. Á Íslandi er allt nám opið nema einstaka greinar sem hafa fjöldatakmarkanir. Mikið jafnrétti er fólgið í því að allir komist í skóla; mér finnst það vanmetið. Unga fólkið í dag hefur miklu meira sjálfstraust en fólk á mínum aldri. Það er mjög sjálfstætt, vel menntað og veit hvað það vill. Námið hefur þar mikil áhrif. Ég held við ættum því ekki að flýta okkur of mikið að setja lög og reglugerðir. Það er að verða kynslóðabreyting sem færir okkur aukið jafnrétti,“ segir Þorsteinn Már.
Hann segir verulega halla á konur í stjórnunarstörfum innan sjávarútvegsins og segir fyrir því margvíslegar ástæður. Ein sé sú að karlar hafi í gegnum tíðina sótt mun meira störf sem eru haftengd, en með tímanum þá muni þetta breytast. Líkt og í öðrum geirum atvinnulífsins, þá sé það menntunin sem muni stuðla að jákvæðum breytingum.
„Þegar ég var í námi í skipaverkfræði í Noregi á sínum tíma var aðeins ein kona með okkur í náminu. Ég byrjaði í námi 1974 og þá voru um 70 nemendur á fyrsta ári í skipaverkfræði. Við vorum í tímum með vélaverkfræðinni þar sem á annað hundrað manns voru teknir inn á fyrsta ár og þar var ein kona. Ári seinna byrjaði síðan fyrsta konan í skipaverkfræðinni. Það hefur ávallt verið lítið af konum í námsgreinum tengdum hafinu. Það skal alveg viðurkennast að í stjórnendateymi Samherja eru að mestu leyti karlmenn án þess að það sé meðvitað. Konur sækja síður á sjóinn og fara ekki í námið eins og karlar. Af stjórnendum hjá okkur eru mjög margir sem hafa verið á sjó, hafa menntað sig á þessu sviði og hafa vaxið innan fyrirtækisins. Í fimm manna stjórn Samherja eru tvær konur.“
Þorsteinn segist vera hlynntur kvótum í fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði og hjá stjórnmálaflokkum. Það sé þó erfiðara að heimfæra slíka kvóta á einkafyrirtæki. „Í þessari umræðu gleymist stundum að það þarf að vera þekking og reynsla á viðfangsefninu. Í dag erum við með 15 sjávarútvegsfræðinga, þar á meðal eru tvær konur. Það tengist þeirri breytingu sem er að verða í sjávarútvegsfræðinni í Háskólanum á Akureyri þar sem konum er að fjölga. En þetta tekur tíma því flestir byrja á sjónum, fara svo í námið og því næst að vinna í landi. Stjórnendur hjá fyrirtækinu eru bæði að stjórna mannskap á landi og á hafi úti. Á hafi úti er æðsti maður á skipinu, skipstjórinn, stjórnandinn. Það er hann sem þarf að meta aðstæður hverju sinni og það er ekki auðvelt starf. Veður eru misjöfn og skipstjórinn þarf að stjórna veiðunum og skipinu sjálfu, hann verður því einn að ráða. Síðan er það starfsemin í landi en til að geta selt vöru eins og fisk er nauðsynlegt að hafa þekkingu á því hvernig framleiðslan fer fram,“ segir Þorsteinn Már.