Fjármálaeftirlitið (FME) hefur vísað máli Borgunar til héraðssaksóknara, þar sem eftirlitið telur að Borgun hafi vanrækt af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi að kanna áreiðanleika upplýsinga um erlenda viðskiptavini sína. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var málinu vísað til embættisins í gær og rannsóknin því stutt á veg komin. Ástæða þess að málinu var vísað til héraðssaksóknara er sú að vanræksla fjármálafyrirtækja á því að fylgja lögum um varnir gegn peningaþvætti getur leitt af sér refsingu.
Þeir erlendu viðskiptavinir sem um ræðir eru, samkvæmt viðmælendum Kjarnans, í þannig starfsemi að önnur færsluhirðingarfyrirtæki hafa veigrað sér við að taka þau inn í viðskipti.
Uppfylla ekki kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti
Á föstudaginn var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði komist að þeirri niðurstöðu, eftir athugun sem stóð í um níu mánuði, að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis uppfylli ekki með viðunandi hætti þær megin kröfur sem gerðar eru í lögum. Borgun voru gefnir tveir mánuðir til að ljúka úrbótum vegna athugasemda eftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið tók úrtak 16 viðskiptamanna á alþjóðasviði Borgunar þegar það framkvæmdi athugun á eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá fyrirtækinu. Í tilviki 13 af 16 viðskiptamanna var ekki framkvæmd könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamennina samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á meðan að á athugun Fjármálaeftirlitsins stóð, en hún hófst 27. maí 2016 og lauk í febrúar 2017, sleit Borgun viðskiptasambandi við þrjá þessara viðskiptamanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlitsins.
Þar segir einnig að eftirlitið hafi gert athugasemd við að í tilviki fimm af 16 viðskiptavina Borgunar sem voru kannaðir hafi Borgun ekki greitt fyrstu greiðslu á grundvelli samnings um færsluhirðingu inn á reikning viðskiptamannsins, eins og lög segja til um. „Í öllum tilvikum var um að ræða viðskiptamenn sem eru eingöngu í starfsemi erlendis og voru ekki á staðnum til að sanna deili á sér við upphaf viðskipta. Þá voru ekki fyrirliggjandi samningar um að Borgun hf. hefði útvistað framkvæmd áreiðanleikakannanna til þriðja aðila sem staddur væri á sama stað og viðskiptamaðurinn og þannig tryggt að viðskiptamaðurinn teldist vera á staðnum til að sanna á sér deili við framkvæmd áreiðanleikakönnunar.“