Hagnaður Landsvirkjunar í fyrra nama 66 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um sjö milljörðum króna miðað við núverandi gengi (Bandaríkjadalur = 106 ISK). Ávöxtun eigin fjár Landsvirkjunar var því 3,3 prósent í fyrra, sem telst fremur lágt í alþjóðlegum samanburði sambærilegra fyrirtækja.
Árið 2015 var hagnaður fyrirtækisins 84,2 milljónir Bandaríkjadala eða tæpir 9 milljarðar, og er því lækkun á hagnaði milli ára.
Eigið fé Landsvirkjunar nam í árslók tæplega 2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 212 milljörðum króna.
Sé mið tekið af því, að verðmiðinn á fyrirtækinu sé um tvöfal til þrefalt eigið fé fyrirtækisins, þá er verðmiðinn á bilinu 424 til 636 milljarðar króna, miðað við núverandi gengi.
Handbært fé frá rekstri nam 229,8 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 24,2 milljörðum króna. Þetta er 7,7 prósent lækkun frá 2015.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins að rekstrarniðurstaðan sé ásættanleg, þrátt fyrir að hún sé lakari en árið á undan. „Ytri aðstæður voru ekki hagfelldar á árinu 2016. Álverð var áfram lágt, þótt það hafi farið hækkandi á seinni hluta ársins. Enn eru tekjur okkar að nokkru leyti bundnar við álverð. Þá minnkaði selt magn milli ára þvert á áætlanir, vegna rekstrarvanda viðskiptavina. Þrátt fyrir þetta héldust tekjur nærri óbreyttar milli ára. Sterkt sjóðstreymi gerði meira en að standa undir framkvæmdum við nýja vatnsaflsvirkjun Búrfell II og jarðvarmavirkjun við Þeistareyki. Það er ánægjulegt að geta unnið að þessari uppbyggingu og hækka ekki skuldir, heldur þvert á móti lækka þær. Lækkun skulda á undanförnum árum er að skila sér í auknum mæli í rekstri fyrirtækisins en það sést á verulegri lækkun vaxtagjalda milli ára. Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hækkaði um einn flokk í janúar 2017 og hefur fyrirtækið hækkað um þrjá flokka á síðustu árum. Fyrirtækið er í fjárfestingarflokki án ríkisábyrgðar og nálgast nú sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum að þessu leyti,“ segir Hörður.
Á undanförnum mánuðum hefur álver hækkað nokkuð, og horfur því töluvert betri á álmörkuðum. Meðalverð á tonn er nú um 1.900 Bandaríkjadalir en það var um 1.600 Bandaríkjadalir á síðasta ári, að meðaltali.