Fjórum flugskeytum var skotið frá Norður-Kóreu í Japanshaf í gærkvöldi, að því er fram kemur á vef Washington Post. Þrjú skeytanna eru talin hafa hafnað innan japanskrar landhelgi og þau sem næst voru landi lentu 350 kílómetra frá Akita, japönsku landssvæði.
Japönsk yfirvöld hafa þegar hækkað viðbúnaðarstig í landinu upp í efsta þrep og sagði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, við þing landsins að þessi flugskeytaskot væru til marks um að ógnin frá Norður-Kóreu væri orðin meiri, að því er segir á vef Bloomberg.
Talið er að Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, vilji með þessu mótmæla heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, en þær standa nú yfir.
Skotin eru talin hafa komið af svæði nærri Dongchang-ri skotsvæðinu. Norður-Kórea gerir tilraunir með langdræg skeyti á því svæði og hafa skotin verið tíðari upp á síðkastið.
Á síðusta rúmlega hálfa árinu hefur Norður-Kóreumönnum í þrígang tekist að skjóta á loft meðaldrægum eldflaugum. Þá er talið að Norður-Kóreumenn hafi sprengt kjarnorkusprengju í tvígang á síðasta ári.
Síðasta eldflugarskotið, áður en kom til þessa í gær, fór fram á sama tíma og Abe forsætisráðherra Japans og Donald Trump funduðu í Hvíta húsinu.
Donald Trump hefur sagt að Bandaríkin muni styðja Japan og Suður-Kóreu „hundrað prósent“.