Þrír karlar munu fá styrk upp á eina milljón króna fyrir að fara í nám á meistarastigi í leikskólakennarafræðum í annað hvort Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri í haust.
Þetta er gert á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasviðs Hákóla Íslands, Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla, en þessir aðilar fengu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til að vinna að verkefni undir yfirskriftinni „Karlar í yngri barna kennslu.“
Meginmarkmiðin með verkefninu eru að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum, og að fjölga þeim í starfi.
Karlarnir þrír verða ráðnir sem verkefnisstjórar í verkefninu og munu sinna verkefnum í samráði við stýrihóp með því markmiði að vekja athygli á náminu. Þeir munu fá styrkinn greiddan þegar námi er lokið og þeir hafa skilað inn afriti af leyfisbréfi til kennslu á leikskólastigi ásamt greinargerð. Karlarnir eiga að kynna hugmyndir sínar um hvernig þeir hyggist kynna námið og starfið, en engin kvöð er um að þeir starfi sem leikskólakennarar þegar þeir hafa fengið styrkinn.
Karlar eru innan við tvö prósent menntaðra leikskólakennara á landinu, og ýmislegt hefur verið reynt í gegnum tíðina til að fjölga þeim, en með litlum árangri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.