Vöxturinn hjá bílaleigum hér á landi hefur verið - eins og margt annað sem tengist ferðaþjónustunni - með miklum ólíkindum. Í fyrra er talið að yfir 20 þúsund bílaleigubílar hafi verið á götunni, sem nemur um 10 prósent af öllum bílaflota landsmanna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna.
Bílaleiguflotinn taldi 20.847 bíla þegar hann var hvað stærstur á árinu 2016 samanborið við 15.400 bíla árið 2015, að því er fram kemur í skýrslunni.
Það jafngildir því að næstum 1 af hverjum 10 bílum á landinu sé bílaleigubíll. „Millistórum og stórum rekstraraðilum á bílaleigumarkaðnum fjölgar ennþá. Um 85% af bílum í bílaleiguflotanum eru í eigu 20 stærstu aðilanna á markaðnum. Eftir 2008 hafa um 43% af öllum seldum nýjum bílum farið til bílaleigna,“ segir í skýrslunni.
Á árinu 2016 keyptu bílaleigur um 9.250 nýja bíla eða um 42% af heildarsölunni. Vart þarf að taka fram að slíkt hlutfall hefur aldrei sést hér á landi.
Búist er við að velta bílaleigugreinarinnar muni nema allt að 60 milljörðum króna á árinu 2017, samanborið við 35 milljarða árið 2015, að því er segir í skýrslunni.
Stærsta fyrirtækið á íslenska markaðnum er Höldur/Bílaleiga Akureyrar/Europcar, sem allt eru vörumerki undir sama fyrirtækjahattinum. Það fyrirtæki var með tæplega 4.500 bílaleigubíla á sínum snærum í fyrra.