Fjármálaeftirlitið (FME) hefur engar upplýsingar birt um það hverjir eru endaeigendur vogunarsjóðanna Taconic Capital og Och-Ziff Capital sem sækja nú fast að eignast beint 20 til 25 prósent hlut í Arion banka á móti sambærilegri eign íslenskra lífeyrissjóða.
Eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um fyrirhugaða sölu á eignarhlutum í Arion banka þá er vonast til þess innan Kaupþings, sem á 87 prósent hlut í Arion banka, að hægt verði að ljúka sölunni í apríl eða maí.
Ríkið á 13 prósent eignarhlut í bankanum.
Kjarninn sendi fyrirspurn til FME, 23. febrúar, þar sem spurt var hverjir væru endaeigendur fyrrnefndra sjóða og hvort FME hefði metið hvort þeir væru æskilegir.
Engin svör hafa borist, og ekki hefur eftirlitið heldur birt upplýsingar er varðar þessi atriði. Samkvæmt lögum hefur eftirlitið þetta hlutverk, og hefur það komið þeim upplýsingum áleiðis, að vogunarsjóðirnir geti talist hæfir eigendur.
Mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi virks eiganda fjármálafyrirtækja grundvallast á ýmsum þáttum sem skilgreindir eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Á meðal þeirra atriða sem tilgreind eru í lögunum og þurfa að vera í lagi eru orðspor aðilans, reynsla hans, fjárhagslegt heilbrigði, hvort ætla megi að eignarhaldið torveldi eftirlit og hvort ætla megi að það leiði til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Auk þess kemur til sérstakrar skoðunar hvort vafi leiki á því hver sé raunverulegur eigandi virks eignarhlutar.