Bankaráð Seðlabanka Íslands lét Lagastofnun Háskóla Íslands vinna stjórnsýsluúttekt á gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Skýrslunni var skilað skömmu fyrir síðustu áramót, samkvæmt heimildum Kjarnans. Við gerð skýrslunnar voru skoðuð nokkur dæmi um aðila sem höfðu verið til meðferðar hjá eftirlitinu, en alls skipta þeir sem þurftu á undanþágum þess að halda á haftaárunum frá hruni þúsundum. Á meðal þeirra dæma sem voru skoðuð voru mál Samherja, útgerðarfyrirtækis sem var ítarlega rannsakað af gjaldeyriseftirlitinu vegna gruns um brot á lögum um gjaldeyrismál.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans benda niðurstöður úttektarinnar til þess að skoða þurfi framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins betur og hefur það verið rætt innan bankaráðs Seðlabanka Íslands. Nýtt bankaráð hefur hins vegar ekki verið skipað eftir síðustu þingkosningar og því er talið líklegra en ella að ákvörðun um næstu skref bíði nýs bankaráðs. Í því skrefi felst að leggja mat á niðurstöður úttektarinnar og ákveða hvað eigi að gera næst.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Samherji hefði krafist þess með áskorun fyrir dómi að fá afhentar upplýsingar um málefni sem snúa að rannsóknum og aðgerðum Seðlabanka Íslands gagnvart fyrirtækinu, sem er að finna í úttekt Lagastofnunar. Lögmaður Samherja hafði þá krafið Seðlabankann um afrit af úttektinni, en án árangurs.
Margra ára rannsókn á Samherja
Í september 2015 felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál gegn Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og þremur öðrum lykilstarfsmönnum fyrirtækisins, sem Seðlabanki Íslands hafði vísað til embættisins. Seðlabankinn vísaði málinu til embættisins á grundvelli þess að þeir hefðu brotið gegn lögum um gjaldeyrismál.
Málið hófst með húsleitum í starfsstöð Samherja á Akureyri og í Reykjavík, í mars 2012.
Eftir að málinu lauk, hefur Samherji sótt á Seðlabankann og hefur Þorsteinn Már ítrekað sagt að einhver verði að axla ábyrgð vegna þessara aðgerða gegn Samherja, þar sem fyrirtækið hefði ekki brotið gegn lögum, eins og nú hefur verið staðfest.
Þorsteinn Már hefur þegar kært tvo yfirmenn í Seðlabankanum vegna málsins til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þau Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.
Byggir kæran meðal annars á því að þau hafi ekki aðeins komið „rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum“ til leiðar heldur einnig komist undan því að koma „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins“.