Dagur B. Eggertsson, borgarstóri, segir að íslenska ríkið verði að nýta ónýttar lóðir sem það á á höfuðborgarsvæðinu til að byggja upp húsnæði. Hann segir að ríkið og sveitarfélög verði að vinna að saman að því að auka framboð húsnæðis til að leysa þann vanda sem nú sé á fasteignamarkaði.
Fasteignaverð hefur hækkað um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum, og telur Þjóðskrá að vöntun sé á um átta þúsund íbúðum inn á markað til að anna eftirspurn, sé horft til sögulegrar þróunar þegar kemur að árlegri þörf.
Í vikulegum pistli sínum segir Dagur að hann líti svo á að stjórnvöld hafi gert mikil mistök um síðustu aldamót þegar verkamannabústaðakerfið var brotið upp, og nauðsynlegt sé að byggja upp nýtt húsnæðiskerfi sem tryggi fólki þak yfir höfuðið.
„Eitt mesta óheillaskref sem stigið hefur verið í húsnæðissögu þjóðarinnar var þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gekk milli bols og höfuðs á verkamannabústaðakerfinu um síðustu aldamót. Það hafði byggst upp á meira en hálfri öld og veitt þúsundum fjölskyldna öruggt skjól. Ekkert var sett fram í staðinn. Markaðurinn átti að leysa málið. Þetta voru alvarlegar villigötur sem samfélagið er ennþá að súpa seyðið af.“
„Í borgarráði í vikunni urðu þau tímamót að við úthutuðum fyrstu lóðunum til samstarfsverkefnis borgarinnar og verkalýðshreyfingarinnar við uppbyggingu hagkvæms leiguhúsnæðis án hagnaðarsjónarmiða. ASÍ og BSRB hafa stofnað húsnæðisfélag sem byggja mun 1.000 leiguíbúðir í Reykjavík á næstu fjórum árum. Lóðirnar fyrir fyrstu íbúðirnar verða við Móaveg í Grafarvogi, Urðarbrunn í Úlfarsárdal og Hallgerðarveg við Kirkjusand en alls munu um 300 íbúðir rísa á þessu reitum. Næstu lóðum til verkefnins verður úthlutað síðar á þessu ári. Reykjavíkurborg og ríkið leggja fram stofnframlög vegna verkefnanna á grundvelli laga sem loksins voru samþykkt í haust.“
„Ég bind miklar vonir við þessa uppbyggingu sem segja má að séu hinir nýju verkamannabústaðir í breyttri mynd. Samstarfið er jafnframt hluti af þeirri megináherslu borgarinnar að eiga samstarf við húsnæðisfélög sem byggja án hagnaðarsjónarmiða,“ segir Dagur.
Hann segist ennfremur viss um að markaðurinn mun ekki leysa úr þeim vanda sem sé kominn upp. Hugsa þurfi stórt, og að samstarf þeirra sem aðkomu eiga að húsnæðismálum sé nauðsyn. „Ég tel að staðan á húsnæðismarkaði kalli á að ríki og Reykjavíkurborg efni til samstarfs um uppbyggingu í þágu ungs fólks sem vill kaupa húsnæði en á ekki möguleika á því í núverandi stöðu.“
„Í mínum huga mun markaðurinn ekki leysa þetta verkefni einn og sér, frekar en að hann hafi komið í stað verkamannabústaðarkerfisins á sínum tíma. Ríki og borg geta lagt fram lóðir og svæði, auk þess sem huga þarf að regluverki sem miðar að þvi að íbúðirnar verði reistar og seldar án hagnaðarsjónarmiða. Slík fordæmi eru þekkt þegar íbúðir fyrir eldri borgara eru annars vegar. Þetta þyrfti að útfæra vandlega og gætu þetta verið söluíbúðir eða einhverskonar kaupleigu- eða búseturéttaríbúðir, eða blanda af þessu þrennu.“
„Markmiðin væru þau sömu og með verkamannabústöðunum á sínum tíma, öruggt þak yfir höfuðið. Það er einnig mikilvægt að þessi verkefni komi til viðbótar við samstarf um byggingu 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðar sem unnið er að í Reykjavík og er lykilatriði til að gera húsnæðismarkaðinn betri. Í þessu samhengi má bæta við að í borgarráði í vikunni var lagt fram bréf sem ég sendi félags- og fjármálaráðherra til að ítreka óskir borgarinnar um að vannýttar lóðir sem ríkið hefur haft yfir að ráða innan borgarmarkanna verði látnar renna til uppbyggingar hagkvæms íbúðarhúsnæðis. Þær eru á góðum stöðum og á þessum svæðum gætu risið allt að 800 íbúðir. Margar lóðanna henta sérstaklega vel fyrir stúdentaíbúðir eða söluíbúðir fyrir ungt fólk, eins og nefnt var hér að ofan,“ segir Dagur í pistli sínum.