Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, sagði við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í opinberri heimsókn hennar til Bandaríkjanna, að þau hefðu bæði verið hleruð í tíð Baracks Obama, forvera Trumps í starfi forseta. „Við eigum í það minnsta eitthvað sameiginlegt,“ sagði Trump við Merkel, að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Trump hefur fullyrt að Obama hafi látið hlera hann í Trump Tower turninum í New York, en því hafa allar leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafnað, sem og sérstök þingnefnd Bandaríkjaþings, skipuð Repúblikönum og Demókrötum. Trump lætur ekki segjast og heldur áfram að fullyrða að Obama hafi látið hlera sig.
Í heimsókninni var fyrirfram skipulagt að ræða um samstarf á vettvangi NATO, viðskiptatengsl landanna tveggja og aðgerðir til sporna gegni ógnandi framkomu Rússa í Austur-Evrópu.
Merkel er einnig sögð hafa viljað ræða um alþjóðasamvinnu á víðum grunnu og meðal annars vaxandi spennu á Kóreuskga, þar sem ólíkindatólið Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur ógnað Japönum, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum, með eldflaugaskotum sem hafa lent í japanskri lögsögu.