Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir það mikil tímamót í uppgjörinu við bankahrunið að erlendir aðilar vilja eignast hlut í íslenskum banka. Í gær var greint frá því að þrjú sjóðstýringarfyrirtæki, sem reka fjárfestinga- og vogunarsjóði, hafi ásamt Goldman Sachs keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka.
Um er að ræða stærstu erlendu fjárfestingu í íslensku fjármálakerfi frá upphafi. Allir fjórir aðilarnir voru umsvifamiklir í kröfuhafahópi Kaupþings og voru því að kaupa eign sem var óbeint áður í þeirra eigu.
Bjarni segir í Morgunblaðinu í dag að kaupin sýni ótvírætt traust á aðstæðum hérlendis og að það séu sannarlega góðar fréttir að hingað vilji koma öflugir erlendir aðilar sem vilji gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum. „Auðvitað á eftir að koma í ljós hvað þessir tilteknu aðilar eru að hugsa og hversu lengi þeir hafa hugsað sér að fjárfesta hér en viðskiptin sem slík eru mikið styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf.“
Hann segir þar enn fremur að það sé ekki sérstakt kappsmál að erlendir fjárfestar komi hingað til lands og kaupi upp fjármálafyrirtæki en hins vegar sé mikilvægt að stuðla að dreifðu eignarhaldi margra traustra langtímafjárfesta.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er ekki jafn ánægður með viðskiptin og eftirmaður hans. Í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi segir Sigmundur Davíð að vogunarsjóðir og „sjálf erkitáknmynd alþjóða- fjármálakerfisins, Goldman Sachs, eignast Arionbanka (30%). Ríkisstjórnin algjörlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins. Hefur þó e.t.v. fengið að fylgjast með þessu á fundum í New York.“
Þar vísar hann í nýlega fundi sem embættismenn úr forsætis- og fjármálaráðuneytinu áttu með fulltrúum þeirra aflandskrónueigenda sem höfðu ekki viljað fara út þegar þeim bauðst að gera það sumarið 2016.
Sigmundur Davíð rifjar upp að Fjármálaeftirlitið hafi sagt að yfirtaka vogunarsjóðsins Burlington Loan Management, í eigu Davidson Kempner, á íslenska fjármálafyrirtækinu Lýsingu væri ekki fordæmisgefandi og spyr hvað muni gerast nú?
„Rennur þetta í gegn og klárast umræðulaust með samstilltum fréttatilkynningum eftir kvöldfréttir á sunnudegi? Sumum hefur þótt það merki um „paranoju" þegar bent er á að þessir aðilar beiti ýmsum ráðum til að hámarka hagsmuni sína á Íslandi.“