Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur enn til að skrá Arion banka á markað á Íslandi og Svíþjóð, þrátt fyrir að fjórir erlendir aðilar hafi keypt 29,18 prósent hlut í bankanum í gær. Stefnt er að því að skráningin eigi sér stað í haust.
Áður en af henni verður mun hópurinn sem keypti stóran hlut í bankanum í gær nýta forkaupsrétt sinn á 21,9 prósent hlut til viðbótar og þar með eiga 51,08 prósent hlut í Arion banka. Verðið sem greitt verður fyrir síðari kaupin er yfir því kaupverði sem greitt var í lokaða útboðinu sem lauk um helgina. Ekki fást hins vegar upplýsingar hjá Kaupþingi um hvert verðið sem greitt verður fyrir 21,9 prósent hlutinn á að vera.
Eftir mun standa 35,92 prósent hlutur sem seldur verður í aðdraganda skráningar á markað. Til greina kemur, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, að selja hluta þess hlutafjár til fagfjárfesta í stærri viðskiptum fyrir skráningu og afganginn síðan í almennu útboði. Ljóst er að um verður að ræða stærstu skráningu eftirhrunsáranna, en eigið fé Arion banka var 211 milljarðar króna um síðustu áramót.
Leynd yfir því hverjir eru endanlegir eigendur
Í gær var tilkynnt að vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital og Attestor Capital hefðu ásamt fjárfestingabankanum Goldman Sachs keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna í lokuðu útboði. Fjárfestarnir fá einnig kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar á verði sem hefur ekki verið uppgefið, en er sagt hærra en það sem þeir greiddu í þessari lotu.
Allir kaupendurnir eru á meðal eigenda Kaupþings, félagsins sem seldi hlutina.
Þótt gefin hafi verið upp nöfn þeirra vogunarsjóða sem voru að kaupa hlut í íslenskum viðskiptabanka, og nafn fjárfestingabankans Goldman Sachs, þá liggur ekkert fyrir um hverjir það eru sem voru að kaupa Arion banka. Þ.e. hverjir séu endanlegir eigendur þess fjármagns sem verið er að nota. Fjármálaeftirlitið (FME) mun auk þess ekki fara yfir æfi þeirra vogunarsjóða sem keyptu stóran hlut í Arion banka í gær til að fara með virkan eignarhlut í bankanum. Ástæðan er sú að þeir tveir sjóðir sem tóku stærstu stöðuna, Taconic Capital og Attestor Capital, keyptu 9,99 prósent hlut hvor. Til að FME meti hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut þurfa þeir að eiga í minnsta lagi tíu prósent hlut.