FME segir að birta verði nöfn allra sem eigi yfir eitt prósent í banka

Fjármálaeftirlitið mun ekki meta hvort nýir eigendur Arion banka séu hæfir sem virkir eigendur. Stærstu nýju eigendurnir eiga 9,99 prósent en þurfa að eiga tíu prósent til að eftirlitið framkvæmi mat.

fme.jpg
Auglýsing

Fjár­mála­eft­ir­litið (FME) var upp­lýst um kaup á eign­ar­hlut í Arion banka og var í aðdrag­anda þeirra í sam­skiptum við við­eig­andi aðila vegna máls­ins. Þá á Fjár­mála­eft­ir­litið von á til­kynn­ingum um virka eign­ar­hluti í Arion banka vegna mögu­legs auk­ins eign­ar­hlut­ar. Á grund­velli slíkra til­kynn­inga leggur Fjár­mála­eft­ir­litið mat á hæfi aðila til að fara með eign­ar­hlut­inn og aflar meðal ann­ars upp­lýs­inga um raun­veru­lega eig­endur þeirra. Þetta kemur fram í frétt á vef eft­ir­lits­ins.

Þar segir einnig: „Fjár­mála­eft­ir­litið vekur athygli á því að fjár­mála­fyr­ir­tækjum ber að til­greina nöfn og hlut­falls­legt eign­ar­hald allra þeirra sem eiga umfram eitt pró­sent hluta­fjár á heima­síðu sinni. Sé lög­að­ili eig­andi hluta­fjár umfram eitt pró­sent skal jafn­framt koma fram hvaða ein­stak­lingur eða ein­stak­lingar séu raun­veru­legir eig­endur við­kom­andi lög­að­ila.“

FME mun hins vegar ekki fara yfir hæfi þeirra vog­un­ar­sjóða sem keyptu stóran hlut í Arion banka í gær til að fara með virkan eign­ar­hlut í bank­an­um. Ástæðan er sú að þeir tveir sjóðir sem tóku stærstu stöð­una, Taconic Capi­­tal og Attestor Capi­tal, keyptu 9,99 pró­sent hlut hvor. Til að FME meti hæfi aðila til að fara með virkan eign­ar­hlut þurfa þeir að eiga í minnsta lagi tíu pró­sent hlut. 

Auglýsing

Í frétt FME seg­ir:„Með umræddum kaupum fjög­urra fjár­festa á tæp­lega 30 pró­sent eign­ar­hlut í Arion banka mynd­ast ekki nýr virkur eign­ar­hlutur í bank­anum þar sem ein­stakir fjár­festar fara með minna en 10% eign­ar­hlut. Kaupin hafa ekki áhrif á skil­yrði sem Fjár­mála­eft­ir­litið setti árið 2010 fyrir virkum eign­ar­hlut Kaup­þings í  gegnum eign­ar­halds­fé­lagið Kaup­skil í bank­anum sem m.a. tak­marka veru­lega áhrif hlut­hafa Kaup­þings á stjórnun bank­ans, en umræddir fjár­festar fara beint eða óbeint með eign­ar­hlut í Kaup­þingi. Fjár­mála­eft­ir­litið hefur áskilið sér rétt til að taka upp ofan­greind skil­yrði og hefur sett fram tíma­mörk í því skyni. Umræddum eign­ar­hlutum fylgir ekki atkvæð­is­réttur að svo stödd­u.“

Meira úr sama flokkiInnlent
None