Enginn fær að vita hver var að kaupa íslenskan viðskiptabanka

Vogunarsjóðirnir sem keyptu hlut í Arion banka í gær gættu þess að eiga bara 9,99 prósent hlut. Ef þeir hefðu átt 0,01 prósent í viðbót væru þeir virkir eigendur og um þá gilda mun strangari reglur. Ekkert liggur fyrir um hverjir eru endanlegir eigendur.

Menn með poka á haus mynd Sebastien Decoret
Auglýsing

Annan sunnu­dag­inn í röð bár­ust stór­frétt­ir. Á þeim fyrri var til­kynnt um mikla losun hafta og nýtt sam­komu­lag við aflandskrónu­eig­end­ur. Í gær var til­kynnt um að þrír vog­un­ar­sjóðir og Gold­man Sachs-­bank­inn hefðu saman keypt 29,18 pró­sent hlut í íslenskum banka, Arion banka.

Frá því í febr­úar hefur legið fyrir að fram undan væru tíð­indi varð­andi eign­ar­haldið á Arion banka. Stærstu eig­endur Kaup­þings, vog­un­ar­sjóðir með höf­uð­stöðvar í New York, voru að reyna að fá íslenska líf­eyr­is­sjóði með sér í að kaupa helm­ings­hlut í bank­an­um. Lagt var upp með að þrír stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, Gildi, Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna og LSR, myndu leiða kaupin fyrir hönd líf­eyr­is­sjóð­anna og taka stærstan hlut. Hug­myndin var að líf­eyr­is­sjóð­irnir myndu taka 25-30 pró­sent hlut í Arion banka en vog­un­ar­sjóð­irnir – Taconic Capi­tal og Och-Ziff Capi­tal og jafn­vel fleiri – 20-25 pró­sent hlut.

Í lok síð­ustu viku var orðið nokkuð ljóst að lík­urnar á aðkomu íslensku líf­eyr­is­sjóð­anna, sem ætl­uðu sér að greiða fyrir sinn hlut með rík­is­skulda­bréf­um, var í besta falli í upp­námi. Morg­un­blaðið greindi þá frá því að for­svars­menn sjóð­anna hefðu ekki fengið að sjá áreið­an­leika­könnun sem gerð hafði verið á rekstri og efna­hag Arion banka.

Það varð svo ljóst á sunnu­dag að líf­eyr­is­sjóð­irnir kæmu ekki að kaup­unum í þess­ari umferð. Þá var skyndi­lega til­kynnt að vog­un­ar­sjóð­irnir Taconic Capi­tal, Och-Ziff Capi­tal og Attestor Capi­tal hefðu ásamt fjár­fest­inga­bank­anum Gold­man Sachs keypt 29,18 pró­sent hlut í Arion banka á 48,8 millj­arða króna í lok­uðu útboði. Fjár­fest­arnir fá einnig kaup­rétt á 21,9 pró­sent hlut til við­bótar á verði sem hefur ekki verið upp­gef­ið, en er sagt hærra en það sem þeir greiddu í þess­ari lotu.

Ekk­ert vitað hverjir þetta eru

Þótt gefin hafi verið upp nöfn þeirra vog­un­ar­sjóða sem voru að kaupa hlut í íslenskum við­skipta­banka, og nafn fjár­fest­inga­bank­ans Gold­man Sachs, þá liggur ekk­ert fyrir um hverjir það eru sem voru að kaupa Arion banka. Þ.e. hverjir séu end­an­legir eig­endur þess fjár­magns sem verið er að nota.

Fyrir því eru for­dæmi hér­lendis að vog­un­ar­sjóðir megi eiga fjár­mála­fyr­ir­tæki, án þess að til­greint sé hverjir end­an­legir eig­endur þeirra séu. Það var til að mynda leynd yfir eig­endum Straums fjár­fest­inga­banka, sem voru lengi vel faldir á bak við dótt­ur­fé­lag þýska bank­ans Deutsche Bank í Hollandi. Þrátt fyrir það fékk Straumur fjár­fest­inga­banka­leyfi árið 2011. Lands­menn fengu hins vegar ekki að vita hverjir áttu bank­ann.

Í upp­hafi árs 2017 var vog­un­ar­sjóð­ur­inn Burlington Loan Mana­gement, dótt­ur­fé­lag Dav­id­son Kempner, metin hæfur til að fara með 100 pró­sent virkan eign­ar­hlut í fjár­mála­fyr­ir­tæk­inu Lýs­ingu.

Í sam­tali við Morg­un­blaðið 31. jan­úar síð­ast­lið­inn var­aði Jón Þór Sturlu­son, aðstoð­ar­for­stjóri Fjár­mála­eft­ir­lits­ins, þó við því að of víð­tækar álykt­anir væru dregnar um for­dæm­is­gildi þeirra ákvörð­un­ar. Stutta svarið er að ef þetta væri við­skipta­­banki þá þurfa ekki end­i­­lega sömu við­mið að gilda,“ sagði Jón Þór aðspurður um for­dæm­is­gild­ið. Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans í febr­úar sagði Fjár­mála­eft­ir­litið þó að erlendir vog­un­ar­sjóðir megi eiga hlut í íslenskum við­skipta­banka svo lengi sem ákveðin skil­yrði séu upp­fyllt.

Og frá og með deg­inum í gær þá eiga þeir stóran hlut í slík­um.

Ekki mjög opið né gagn­sætt

Ef það var eitt þema sem var mjög ríkj­andi í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrrar rík­is­stjórnar Bjarna Bene­dikts­sonar þá var það að nú myndi allt verða opið og gegn­sætt. Vinnu­brögð í opin­berri stefnu­mótun og stjórn­sýslu áttu að vera opin og gagn­sæ. Stjórn­ar­hættir áttu að verða gagn­sæ­ir. Áhersla yrði lögð á opið og gagn­sætt sölu­ferli eigna. Og þegar kæmi að fram­tíð banka­kerf­is­ins – ríkið á tvo banka að nán­ast öllu leyti og 13 pró­sent hlut í Arion banka – þá yrði áhersla „lögð á opið og gagn­sætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreif­ingu eign­ar­halds.“

Varð­andi söl­una á Arion banka er þó fátt opið og gagn­sætt. Hlutur Kaup­þings var seldur í lok­uðu ferli sem virð­ist fyrst og síð­asta hafa staðið hlut­höfum félags­ins til boða. Nán­ast engin gögn hafa verið birt opin­ber­lega um þessi risa­stóru kaup. Og það liggur auð­vitað ekk­ert fyrir um hverjir eru end­an­legir eig­endur þeirra aðila sem til­greindir hafa verið sem kaup­end­ur.

Bene­dikt Jóhann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sagði á Alþingi þann 27. febr­úar að Seðla­banki Íslands hefði kannað hvort ein­hverjir aðrir standi að baki vog­un­ar­sjóð­unum sem hafa nú keypt stóran hlut í Arion banka en til­greint var. „Ég taldi það vera afar mik­il­vægt að vita hvort þetta væru raun­veru­lega þessir aðil­ar, sem allir eru erlend­ir, eða hvort þarna stæðu ein­hverjir íslenskir aðilar að baki. En mér er sagt að svo sé ekki.“

Það er vert að minn­ast á að Seðla­banki Íslands hefur ekki þótt standa sig að öllu leyti sem skildi þegar kemur að því að kanna upp­runa þeirra sem eiga við­skipti við hann.

Starfs­hópur sem vann skýrslu um eignir Íslend­inga á aflands­svæð­um, sem birt var fyrr á þessu ári, velti því meðal ann­ars upp hvort að fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­­­magn­inu frá aflands­­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið­ina.

Auglýsing

Orð­rétt segir í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­­lýs­inga um fjár­­­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­­taka í fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­bank­ans er ekki til stað­­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­­bank­ans þegar um grun­­­sam­­­legar fjár­­­­­magnstil­­­færslur er að ræða.“

Þá greindi Kjarn­inn frá því nýverið að í ákæru gegn meintum fjársvik­ara megi sjá hvernig hann nýtti sér fjár­magns­höftin til að hagn­ast. Mað­ur­inn bjó til sýnd­ar­við­skipti til að koma hund­ruð millj­óna út úr höft­unum og kom síðan aftur til baka með pen­ing­anna í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans. Seðla­bank­inn gerði engar athuga­semdir við hátt­erni manns­ins á meðan að á því stóð, þrátt fyrir að hann eigi að gera kröfu um réttar upp­lýs­ingar um upp­runa alls fjár­magns sem kom með þessum hætti inn í íslenskt efna­hags­líf.

Gold­man Sachs ekki tal­inn lík­legur til að kaupa banka

Í til­kynn­ingu sem send var út í gær vegna kaupanna á 29,18 pró­sent hlut í Arion banka var látið hljóma sem svo að Gold­man Sachs, einn þekkt­asti fjár­fest­inga­banki heims, væri sjálfur að kaupa hlut í Arion banka. Við­mæl­endur Kjarn­ans sem starfa á alþjóð­legum fjár­mála­mark­aði segja þetta í besta falli hlægi­lega fram­setn­ingu. Gold­man Sachs sé alls ekki að kaupa hlut í Arion banka. Að minnsta kosti ekki til að vera lang­tíma­fjár­fest­ir. 

Það sem sé að eiga sér stað sé að Gold­man Sachs, í gegnum sér­stakt eign­ar­halds­fé­lag (e. Special Pur­pose Vehicle) sé að „fronta“ kúnna eða kúnna­hóp hjá sér í þessum við­skipt­um. Ef þau yrðu rakin til end­an­legs eig­anda yrði sá ekki Gold­man Sachs. Þessu neitar þó Kaup­þing. Almanna­tengsla­full­trúar félags­ins segja að fyrir liggi yfir­lýs­ing um að Gold­man Sachs sé að kaupa á eigin reikn­ing.

Goldman Sachs er einn stærsti fjárfestingabanki í heimi.Þegar það er skoðað hvað Gold­man Sachs raun­veru­lega gerir þá sést að kaup á íslenskum við­skipta­banka, eða fyr­ir­tækjum yfir höf­uð, er alls ekki eitt af þeim verk­efnum sem bank­inn ein­beitir sér að í starf­semi sinni.

Enda er kaup­and­inn á 2,6 pró­sent hlutnum í Arion banka sem er eyrna­merktur Gold­man Sachs í til­kynn­ingu kaup­enda í eigum félags sem heitir ELQ Inver­stors II Ltd.

Þrátt fyrir yfir­lýs­ingar vog­un­ar­sjóð­anna sem eru stærstir í kaup­unum á Arion banka um að þeir ætli sér að vera lang­tíma­fjár­festar og að ekki þurfi að setja alla vog­un­ar­sjóði undir sama skamm­tíma­gróða­hatt­inn þá er fátt sem bendir til þess í fyrra atferli, eða í yfir­lýstri stefnu sjóð­anna, um að það eigi við þá. Á heima­síðu Och-Ziff Capi­tal Mana­gement Group, sem hefur nú keypt 6,6 pró­sent hlut í Arion banka, er birt yfir­lit yfir stefnu sjóðs­ins og þau verk­efni sem hann ein­beitir sér að. Erfitt er að sjá að lang­tíma­eign í íslenskum við­skipta­banka falli undir nokkra af þeim stefnum sem hann birtir þar. Och-Ziff er alræmdur sjóð­ur. Í sept­em­ber í fyrra sam­þykkti hann t.d. að greiða um 23 millj­arða króna í sekt vegna þess að dótt­ur­fé­lag hans í Afr­íku, OZ Africa, hafði mútað hátt­settum emb­ætt­is­mönnum í Kongó og Líbýu til að liðka fyrir við­skiptum sjóðs­ins þar.

Kaup­endur eru selj­endur

Kaup­end­urnir eru allt aðilar sem eru ráð­andi innan Kaup­þings, eign­ar­halds­fé­lags­ins sem stofnað var utan um rest­ina af eignum hins fallna banka eftir að samd­ist um slit hans. Þeir eru að kaupa eignir sem þeir áttu áður óbeint. Og það er ástæða fyrir því.

Í fyrsta lagi eru við­mæl­endur Kjarn­ans allir sam­mála um að verðið sem verið sé að greiða fyrir Arion banka sé mjög lágt. Eigið fé bank­ans var 211 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Verðið sem verið er að greiða fyrir hlut­ina núna er 0,79 krónur á hverja krónu af eigin fé. Fram­tíð­ar­kaup á 21,9 pró­sentum til við­bótar mun vænt­an­lega ýta kaup­verð­inu yfir 0,8 krónur á hverja krónu af eigin fé bank­ans, enda má kaup­verðið ekki vera lægra sam­kvæmt ákvæði sem sett var inn þegar samið var um stöð­ug­leika­fram­lög frá kröfu­höfum gömlu bank­anna.

Paul Copley er forstjóri Kaupþings. Hann er einn þeirra sem fær mjög háan bónus ef vel gengur að selja eignir félagsins á sem skemmstum tíma.Sölu­and­virðið verður allt nýtt til að greiða inn á skulda­bréf rík­is­sjóðs sem var hluti af stöð­ug­­leika­fram­lagi Kaup­­þings sem sam­­þykkt var við nauða­­samn­inga félags­­ins. 

Gangi kaupin eftir í takt við þetta plan mun íslenska ríkið ekki geta gengið inn í við­skiptin sam­kvæmt þeim skil­málum sem samið var um. Þ.e. ákvæði sam­komu­lags­ins sem gert var við kröfu­hafa Kaup­þings vegna stöð­ug­leika­fram­laga verður þar með virt. 

Í öðru lagi mun þetta flýta því að Kaup­þing geti greitt meira út til hlut­hafa sinna. Á fyrri hluta árs­ins 2016 var mótuð stefna innan Kaup­þings sem sner­ist um að koma sem mestu af eignum félags­ins í verð sem fyrst. Gangi það eftir fá starfs- og stjórn­ar­menn Kaup­þings mjög háa bónusa. Á fjórða árs­fjórð­ungi í fyrra einum saman var inn­flæði tekna vegna þessa 115,3 millj­arðar króna. Stærsta salan er auð­vitað salan á 87 pró­sent hlutnum í Arion banka. Eða að minnsta kosti hluta hans.

Í þriðja lagi eru þeir að veðja á að krónan muni halda áfram að styrkjast, líkt og hún hefur gert á ofsa hraða á und­an­förnum mán­uð­um. Það mun tryggja þeim geng­is­hagn­að. Vog­un­ar­sjóðir þekkja það að veðja á íslensku krón­una. Það gerðu margir þeirra af miklum moð fyrir hrun og þótt aðferð­irnar séu öðru­vísi nú þá er veð­málið slíkt hið sama.

Verða ráð­andi eig­andi en kom­ast hjá mati FME

Með kaup­unum sem til­kynnt var um í gær verður eng­inn þeirra fjög­urra sem keyptu hlut virkur eig­andi í Arion banka. Til þess þarf, sam­kvæmt lög­um, að eiga yfir tíu pró­sent hlut í fjár­mála­fyr­ir­tæki. Bæði Taconic og Attestor keyptu 9,99 pró­sent, sem er 0,01 pró­senti undir þeim mörk­um.

Sam­an­dregið þurfa þeir því ekki að und­ir­gang­ast mat Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á hæfi virks eig­anda. Slíkt mat grund­vall­ast á ýmsum þáttum em skil­greindir eru í lögum um fjár­mála­fyr­ir­tæki. Á meðal þeirra atriða sem til­greind eru í lög­unum og þurfa að vera í lagi eru orð­spor aðil­ans, reynsla hans, fjár­hags­legt heil­brigði, hvort ætla megi að eign­ar­haldið tor­veldi eft­ir­lit og hvort ætla megi að það leiði til pen­inga­þvættis eða fjár­mögn­unar hryðju­verka. Auk þess kemur til sér­stakrar skoð­unar hvort vafi leiki á því hver sé raun­veru­legur eig­andi virks eign­ar­hlut­ar.

Nýti þessir aðilar við­bót­ar­kaup­rétt á 21,9 pró­sent hlut í Arion banka verða þeir saman meiri­hluta­eig­endur í Arion banka með 51,08 pró­sent eign­ar­hlut. Þeir munu því vera með yfir­ráð yfir Arion banka, kjósi þeir svo. Við­mæl­endur Kjarn­ans sem þekkja til starf­semi sjóð­anna segja það öruggt að þessir aðilar séu að vinna saman að öllu leyti. Þ.e. ekki sé hægt að líta á hvern og einn þeirra sem sjálf­stæða fjár­festa heldur verði að horfa á þá sem eina heild. Auk þess hafi ekki verið kannað með neinum hætti hvort þeir fjár­munir sem standi á bak við fjár­fest­ingar aðil­anna á Íslandi séu að ein­hverju eða öllu leyti komnir frá sömu ein­stak­ling­unum eða fyr­ir­tækj­un­um.

Við­skipta­banki troð­fullur af íslenskum inn­stæðum

En hvaða máli skiptir það hverjir eiga íslenska við­skipta­banka? Það skiptir meðal ann­ars máli vegna þess að allir íslensku við­skipta­bank­arnir voru end­ur­reistir með handafli rík­is­ins til að halda á inn­stæð­um, sem það tryggði í banka­hrun­inu. Íslenska ríkið hefur sýnt það í verki að það tryggir inn­stæður og tryggir greiðslu­miðlun ef illa fer. Og því er nokk­urs konar rík­is­á­byrgð á starf­sem­inni til stað­ar. Áhrif þess að láta íslenska við­skipta­banka fara á haus­inn eru talin of mik­il. Þeir eru of stórir til að falla. Enn þann dag í dag, átta og hálfu ári eftir hrun­ið, eru íslensku bank­arnir að mestu fjár­magn­aðir með inn­stæåðum íslenskra ein­stak­linga og fyr­ir­tækja. Arion banki er með lægsta hlut­fall inn­stæðna af heild­ar­fjár­mögnun sinni. Samt heldur bank­inn á 412 millj­örðum króna af inn­stæðum frá við­skipta­vinum sín­um. Það er helm­ingur af skuldum hans. Auk þess er Seðla­banki Íslands þrauta­vara­lán­veit­andi íslensku bank­anna – þótt hann hafi ekki alltaf getað staðið undir því hlut­verki – og sá aðili sem sér til þess að þeir fái þá fyr­ir­greiðslu sem þeir þurfa lendi þeir í vand­ræð­um.

Í síðustu einkavæðingu á íslenska bankakerfinu keypti Hauck&Aufhauser hlut í Búnaðarbankanum. Í dag er talið að bankinn hafi verið leppur fyrir innlenda aðila. Rannsókn á því er nánast lokið og niðurstöður verða birtar í lok mánaðar. En mestu skiptir að íslenska fjár­mála­kerfið – sem hefur sögu­lega sýnt getu sína til að valda ótrú­legum sam­fé­lags­legum skaða hér­lendis í verki – sé í eigu aðila sem hafa hags­muni íslensks sam­fé­lags að leið­ar­ljósi í starf­semi sinni. Síð­ast þegar bankar voru einka­væddir var það meðal ann­ars gert með aðkomu þýska einka­bank­ans Hauck &Auf­häuser. Nú stendur yfir rann­sókn sem, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, snýst meðal ann­ars um hvort Kaup­þing, sem var sam­ein­aður Bún­­að­­ar­­bank­­anum skömmu eftir að söl­una á bank­an­um, hafi fjár­­­magnað Hauck &Auf­häuser, sem seldi sig fljót­lega aftur út.

Í það skiptið voru full­yrð­ingar þeirra sem komu að við­skiptum hins erlenda aðila um að hann væri í alvöru áhuga­samur um að kaupa í íslenskum við­skipta­banka látnar nægja. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort sömu skýr­ingar verði keyptar nú þegar erlendir vog­un­ar­sjóðir segj­ast hafa áhuga á lang­tíma­eign­ar­haldi á Arion banka.

Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None