Árið 2016 var ótrúlegt ár fyrir hinn 56 ára gamla Jeff Bezos, stofnanda og forstjóra Amazon. Hrein eign hans jókst um 27 milljarða Bandaríkjadala og stóð í 75 milljörðum Bandaríkjadala í lok árs, eða sem nemur um 8.200 milljörðum króna.
Einungis 24 ríkustu menn heims eiga meiri eignir en sem nemur þessari árlegu aukningu hjá Bezos, sem nú er þriðji ríkasti maður heims á eftir Warren Buffett og Bill Gates.
Eignir Bezos eru að miklu leyti bundnar í hlutabréfum í Amazon en hann á tæplega 17 prósent í smásölu- og tæknirisanum. Amazon varð á árinu 2016 það fyrirtæki sem nær því á stystum tíma, að afla meira en 100 milljarða Bandaríkjadala í tekjur á einu ári.
Bezos er einnig eigandi Washington Post, Blue Origin, geimvísindafyrirtækisins, og fleiri fyrirtækja. Hann hefur rekið Amazon síðan árið 1994 en þá hætti hann störfum hjá vogunarsjóði í New York og hóf að selja bækur í gegnum netið. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan, því Amazon er nú mitt í ævintýralegu vaxtarskeiði.
Fyrirtækið ætlar sér miklu stærri hluti á smásölumarkaði, og er þar að auki að þróa ýmsar tækninýjungar á sviði gervigreindar. Í lok síðasta árs voru starfsmenn á Seattle-svæðinu, þar sem fyrirtækið er með höfuðstöðvar, 35 þúsund talsins, en í lok árs 2019 verða þeir yfir 70 þúsund, samkvæmt vaxtaráformum fyrirtækisins. Mesta fjölgunin verður þó annars staðar í Bandaríkjunum en fyrirtækið vinnur nú að eflingu á söluneti sínu með byggingu vöruhúsa vítt og breitt um Bandaríkin.
Bezos hefur sagt að stefnan sé sú að ráða 100 þúsund nýja starfsmenn á næstu átján mánuðum, sem verða starfandi í vöruhúsum fyrirtækisins. Ráðningarnar eru liður í undirbúningi fyrirtækisins fyrir stigvaxandi heimsendingarþjónustu í smásöluviðskiptum.