Staðfest hefur verið að fimm hafi látið lífið og 40 særst eftir árás við breska þingið í London í dag. Lundúnalögreglan tilkynnti þetta á fundi með blaðamönnum klukkan sex í dag að íslenskum tíma.
Árásarmaðurinn er einn af þeim látnu en hann ók á hóp fólks á Westminister-brúnni áður en hann stökk út úr bílnum og stakk lögreglumann með stórum hníf, að sögn sjónarvotta sem breska ríkisútvarpið BBC vísar til.
Þinghúsinu var lokað og Theresa May forsætisráðherra fór strax í skjól af vettvangi og til fundar við helstu yfirmenn þjóðaröryggismála í landinu. Í yfirlýsingu sagði hún að Bretar stæðu sameinaðir gegn hryðjuverkaógn. „Við munum halda lífi okkar áfram á morgun, við látum ekki beygja okkur,“ sagði hún í ávarpi.