Lögreglumaður var stunginn fyrir framan Westminster, þinghúsið í London, fyrir skömmu. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglunni. Lögreglan í London segir að litið sé á málið sem hryðjuverkaárás þangað til annað kemur í ljós.
Búið er að stöðva þingfund en þingmenn og aðrir í þinghúsinu voru beðnir um að halda kyrru fyrir. Forseti neðri deildar þingsins sagði við þingmenn þegar þingfundurinn var stöðvaður að alvarlegt atvik hefði átt sér stað. Þá hafi borist fréttir af frekari ofbeldisverkum í nágrenninu.
Fjölmiðlar í Bretlandi hafa greint frá því að fólk sé sært á Westminster-brúnni við þinghúsið, en fregnir herma að ekið hafi verið á gangandi vegfarendur á brúnni. Hægt er að sjá á loftmyndum að verið er að sinna fólki sem liggur á brúnni. Sky fréttastofan hefur greint frá því að staðfest hafi verið að fjöldi sjúkrabíla hafi verið sendur að brúnni.
Sjónarvottar sem Sky hefur rætt við segja að karlmaður á miðjum aldri hafi ekið á um það bil fimm gangandi vegfarendur áður en bílnum var ekið að þinghúsinu. Maðurinn hafi reynt að komast inn á lóðina, hafi verið stöðvaður af lögreglu og þá hafi hann stungið lögreglumann. Hann hafi þá verið skotinn. Þó er því haldið til haga að mögulega hafi um tvo mismunandi einstaklinga að ræða, annar hafi ekið á fólk á brúnni en annar stungið lögreglumann.
Verið er að hlúa að báðum mönnunum fyrir framan þinghúsið.