3.255 íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýjum talningum Samtaka iðnaðarins. Það er fjölgun um tæplega 300 íbúðir frá því í síðustu talningu, eða 10%. Langstærsti hluti íbúða sem eru í byggingu eru íbúðir í fjölbýli, eða 2.947 af 3.255. 308 íbúðir eru í byggingu í rað-, par- og einbýlishúsum.
Í þremur sveitarfélögum á svæðinu hefur íbúðum í byggingu fjölgað á þessu tímabili, en í þremur sveitarfélögum eru færri íbúðir í byggingu núna en í síðustu talningu, sem var í september síðastliðnum. Í öllum
Í Reykjavík, langstærsta sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu, eru nú færri íbúðir í byggingu heldur en í september síðastliðnum. Þá voru 1.266 íbúðir í byggingu en nú í febrúar voru þær 1.228. Langstærstur hluti þeirra íbúða sem verið er að byggja eru íbúðir í fjölbýli, 1.181 talsins, á meðan verið er að byggja 34 rað- eða parhús og 13 einbýlishús í borginni.
Í Hafnarfirði eru einnig færri íbúðir í byggingu nú en síðastliðið haust, 237 íbúðir nú miðað við 268 íbúðir þá. Á Seltjarnarnesi er nú verið að byggja 21 íbúð en þær voru 34 í september.
Í Mosfellsbæ hefur íbúðum í byggingu fjölgað um tæplega 100 á þessu hálfa ári, þær voru 388 í september síðastliðnum en í febrúar voru 470 íbúðir í byggingu. Í Garðabæ er fjölgunin einnig veruleg. Nú eru 602 íbúðir í byggingu þar miðað við 476 talsins í september. Sömu sögu er að segja af Kópavogi, en 644 íbúðir eru í byggingu í Kópavogi nú en þær voru 526 í september síðastliðnum.
Mesta prósentuaukningin hefur orðið í byggingu einbýlishúsa, 30,9 prósent frá því í september síðastliðnum. Á sama tíma hefur aukningin verið 10,6 prósent í fjölbýlishúsum en fækkun um sjö prósent í par- og raðhúsum.
Spá 1.600 tilbúnum íbúðum á þessu ári
Samtök iðnaðarins setja einnig fram uppfærða spá um íbúðafjölgun fram til ársins 2020. Nú er því spáð að á þessu ári verði lokið við byggingu rétt tæplega 1.600 íbúða, sem er 200 íbúðum frá viðmiði samtakanna um að 1.800 íbúðir þurfi að byggja á ári. Hafin verður bygging á rúmlega 2.400 íbúðum á árinu að mati SI.
Á næsta ári fer fjöldinn upp fyrir viðmiðið, og lokið verður við 1.921 íbúð. Árið 2019 spá samtökin því að lokið verði við byggingu rúmlega 2.600 íbúða, og sömu sögu verði að segja árið 2020.
Sýnir nauðsyn betri áætlanagerðar
Hagdeild Íbúðalánasjóðs brást við talningunni í morgun, og segir hana sýna að spár síðustu ára um fjölda nýbygginga hafa ekki gengið eftir. Byrjað hafi verið að byggja 438 færri íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í ár en samtökin höfðu spáð fyrir ári síðan. Ein helsta skýringin er talin sú að langan tíma tekur að koma sumum verkefnum af stað.
„Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur að talning Samtaka iðnaðarins varpi ljósi á mikilvægi bættrar áætlanagerðar í húsnæðismálum hér á landi. Áætlunargerð í húsnæðismálum er eitt af nýjum hlutverkum Íbúðalánasjóðs en með nýlegum breytingum á lögum um húsnæðismál var sjóðnum falið að aðstoða sveitarfélög landsins við gerð húsnæðisáætlana. Hluti af þeirri vinnu er að spá fyrir um húsnæðisþörf á komandi árum og sýna fram á langtímaáætlanir um uppbyggingu húsnæðis,“ segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs.