Hæstiréttur sýknaði í dag Seðlabanka Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) af tæplega tveggja milljarða kröfu félagsins Ursus ehf., sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar fjárfestis. Hæstiréttur staðfesti þannig dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.
Heiðar höfðaði málið vegna meints tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna söluferli Sjóvár, en hann taldi að ESÍ og Seðlabankinn hafi ekki staðið við samning um sölu á tryggingafélaginu til hóps sem hann leiddi árið 2010.
Fjárfestahópur sem var leiddur af Heiðari átti hæsta boðið í Sjóvá þegar fyrirtækið var auglýst til sölu. Samningaviðræður hófust við Seðlabankann, sem hélt þá á hlut ríkisins, og Íslandsbanka um kaupin.
Rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á skuldabréfaútgáfu félags Heiðars, sem grunur lék á um að færu í bága við reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál, varð til þess að samningaviðræður voru stöðvaðar.
Málinu var síðar vísað til embættis sérstaks saksóknara sem tók ákvörðun um að hætta rannsókn þess í febrúar 2012. Ríkissaksóknari staðfesti síðar ákvörðun sérstaks saksóknara. Heiðar tilkynnti í kjölfarið að hann hefði falið lögmönnum sínum að undirbúa skaðabótamál á hendur Seðlabankanum vegna þess fjárhagslega tjóns sem rannsóknin hefði valdið honum.
Héraðsdómur og Hæstiréttur komust að þeirri niðurstöðu að Ursus ehf. hefði ekki tekist að sanna að þeir sem höfðu undirritað samkomulag um kaupin á Sjóvá fyrir hönd ESÍ hefðu haft til þess umboð. Þá var litið svo á að Ursus ehf. hefði tekið ákvörðun um að segja sig frá söluferlinu „af fúsum og frjálsum vilja“ áður en bindandi kaupsamningur var gerður. Ekki hafi verið sannað að Seðlabankinn og ESÍ hefðu sammælst um að standa ekki við samninginn. Þá hafi það verið málefnaleg ákvörðun að taka til athugunar hvort Heiðar hefði brotið gegn reglum um gjaldeyrishöft.