Sigurður Hannesson, sem sat í framkvæmdahópi síðustu ríkisstjórnar um losun hafta, segir að það sé mjög gott að virkir hluthafar komi að íslenskum bönkum, sem hafi verið munaðarlausir frá stofnun. Það þurfi að hagræða í bönkunum sem væru allt of stórir og með allt of mikið eigið fé. Aðspurður taldi Sigurður að þeir aðilar sem keyptu hlut í Arion banka um síðustu helgi, þrir vogunarsjóðir og Goldman Sachs, gætu vel verið þessir eigendur. Það þurfi þó að koma fram frekari upplýsingar um fyrirætlanir þeirra.
Sigurður var á meðal gesta á vettvangi dagsins í Silfrinu í dag. Hann var einn helsti ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili og gegndi mikilvægum trúnaðarstöðum í lykilmálum á borð við framkvæmd Leiðréttingarinnar og losun hafta. Sigmundur Davíð hefur gagnrýnt harðlega að þrír vogunarsjóðir og Goldman Sachs hafi keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka og eigi kauprétt að 21,9 prósent hlut í viðbót af sjálfum sér, en sömu aðilar eiga 66 prósent hlut í Kaupþingi, sem var seljandi hlutarins.
Mikilvægt að byggja upp horfið traust
Í máli Sigurðar kom fram að það hefði ekki tekist að byggja upp traust á kerfinu að nýju eftir hrunið, hvorki gagnvart bönkum né öðrum stofnunum. Í könnun sem Gallup gerði og birti niðurstöður úr í lok febrúar nýtur bankakerfið minnst trausts allra stofnana samfélagsins sem spurt var um. Einungis 14 prósent sögðust treysta því. Næst minnst traust ber almenningur til Fjármálaeftirlitsins, þeirrar stofnunar sem mun ákveða hverjir fá að eiga íslenska banka og hverjir ekki. Einungis 19 prósent landsmanna treysta því.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagðist ánægð með að salan hefði átt sér stað, enda mun söluandvirðið renna í ríkissjóð. Hún tók undir að það sé mikilvægt að byggja upp traust og að fram þurfi að koma hverjir séu endanlegir eigendur og stjórnendur þeirra aðila sem keyptu hlutinn í Arion banka síðasta sunnudag. Þá sé ekki æskilegt, líkt og fram hefur komið, að um sé að ræða aðila sem eru í eigu félaga skráðum á stöðum eins og Tortóla eða öðrum aflandssvæðum.
Aðkoma Goldman Sachs óskýr
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það þurfi að nálgast upplýsingar um hverjir séu eigendur sjóðanna og hverjar fyrirætlanir þeirra séu. Bankar á Íslandi þurfi að vera starfræktir þannig að þeir þjóni viðskiptavinum sínum en mega ekki verða dragbítar á lífskjörum. Vilhjálmur segir að eftir 40 ára athugun sína á áhuga erlendra banka á bankastarfsemi á Íslandi þá hafi engir þeirra áhuga á því. Þeir velji sér mun frekar þá viðskiptavini hérlendis sem þeir vilji. Þess vegna sé aðkoma Goldman Sachs að kaupunum á Arion banka mjög óskýr í hans huga.
Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, sagði að þær upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið hafi veitt efnahags- og viðskiptanefnd á föstudag hafi staðfest það sem margir óttast. Vogunarsjóðir hafi það ekki í farteskinu að hugsa með samfélagslegum hætti heldur muni þeir reyna að græða eins mikið og þeir geta á sem skemmstum tíma. Það sé í eðli þeirra.