Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun undirrita tilskipun á þriðjudag sem mun gera fyrirtækjum vestanhafs auðveldara að nýta orkulindir. Þetta er haft eftir embættismönnum í Hvíta húsinu.
Þessari tilskipun er ætlað að draga úr þeim takmörkunum sem stjórn Baracks Obama setti á orkugeirann í Bandaríkjunum, þar sem loftslagsmál voru í fyrirrúmi.
Trump hefur skipað Scott Pruitt forstjóra Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, en sá er yfirlýstur efasemdamaður um loftslagsbreytingar og þvertekur fyrir að maðurinn hafi áhrif á loftslag Jarðar.
Bandaríkin eru eitt þeirra ríka sem undirrituðu Parísarsamkomulagið svokallaða um loftslagsmál á síðasta ári. Í kosningabaráttu sinni sagði Donald Trump ítrekað að hann myndi afnema allar þær kvaðir sem Parísasamkomulagið hefði sett á orkugeirann.
Pruitt lét hafa eftir sér í viðtali á ABC-sjónvarpstöðinni bandarísku að tilskipunin sem Trump ætlar að undirrita á morgun muni hjálpa til við að afnema stefnu Obama sem fór gegn bruna jarðefnaeldsneytis.