Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefur beðist afsökunar á því að hafa greitt götu United Silicon við uppbyggingu á kísilveri í Helguvík. Þetta gerði Ásmundur í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi nú síðdegis.
„Við sem töluðum fyrir uppbyggingu United Silicon í Helguvík og fögnuðum 500 milljón króna fjárfestingasamningi við félagið í apríl 2014 trúðum loforðum fyrirtækisins um fjölbreytt og vel launuð störf, góðan rekstur í sátt við lög og reglur. Okkur er illa brugðið,“ sagði Ásmundur í upphafi ræðu sinnar.
Mengunarvandamál, ófullkomin verksmiðja og svikin loforð í launum séu það sem einkenni upphaf starfseminnar. Fjárfestingasamningur sem gerður var við fyrirtækið hafi gefið því ýmiss konar ívilnanir, eins og lægri tekjuskatt, afslátt af tryggingagjaldi, gatnagerðargjöldum og fleiru.
„Ég er einn þeirra sem samþykkti þennan gjörning. Með þessari eftirgjöf gjalda hefur fyrirtækið töluverða yfirburði á vinnumarkaði.“
Ásmundur sagði fyrirtækið greiða fólki taxta undir tekjuviðmiðum, og færi framhjá samningagerð um vaktavinnu við verkalýðsfélög. Með þessu fyrirkomulagi greiði fyrirtækið starfsfólki um 450 þúsund krónur á mánuði, samanborið við 600 til 700 þúsund krónur í álverunum.
„Ég sem þingmaður vil biðja þjóðina afsökunar á því að hafa greitt götu fyrirtækis sem fengið hefur hundruð milljóna króna stuðning skattgreiðenda að byggja upp rekstur en greiðir starfsmönnum sínum laun sem eru grundvölluð á taxta sem er undir tekjuviðmiðum í landinu.“
Þá hefði fyrirtækið lítil sem engin tök á mengun, væri í ýmiss konar málarekstri gagnvart sveitarfélaginu og ynni hvorki með né fyrir samfélagið á Suðurnesjum. Félag sem starfi svona, í trássi við umhverfið og íbúana, eigi sér ekki bjarta framtíð.