Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vill að lækkun á veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki verði skoðuð. Veiðigjöld hafa lækkað um átta milljarða króna á örfáum árum á sama tíma og sjávarútvegur sem heild hefur farið í gegnum nær fordæmalaust hagnaðarskeið. Eigið fé atvinnugreinarinnar jókst um rúmlega 300 milljarða króna frá árinu 2008 til ársloka 2015 þrátt fyrir að eigendur útgerða hefðu greitt sér út 54,3 milljarða króna í arð á tímabilinu.
Teitur tók til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Þar fjallaði hann um þá ákvörðun HB Granda að hætta bolfisksvinnslu í starfsstöð sinni á Akranesi og sagði: „Í stærra samhengi hluta er því miður hætt við því að þetta sé ekki einangrað tilvik sem um ræðir. Mikil hækkun launa, veruleg styrking krónunnar, háir vextir setja fjölmargar fiskvinnslur í verulegan vanda víða um land og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að gjöld á atvinnuveginn umfram aðrar útflutningsgreinar eru íþyngjandi, gjöld sem leggjast sérstaklega þungt á lítil og meðalstór fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni. Ef það er raunverulegur vilji til þess að treysta atvinnuskilyrði, auka starfsöryggi starfsfólks og auka byggðafestu hlýtur lækkun þeirra að vera einn valkostur sem er í stöðunni.“
Hagnaðurinn 45,4 milljarðar á einu ári
Hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt á árinu 2015 var tæplega 70 milljarðar króna. Hreinn hagnaður sjávarútvegs var 45,4 milljarðar króna á því ári þegar búið var að standa skil á öllum kostnaði. Samanlagt skilaði íslenskur sjávarútvegur hreinum hagnaði upp á 287 milljarða króna á sjö ára tímabili, frá 2009 til loka árs 2015.
Veiðigjald útgerðarinnar fór úr 9,2 milljörðum fiskveiðiárið 2013/2014 í 7,7 milljarða fiskveiðiárið 2014/2015. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði og því er búið að taka tillit til þess þegar hreinn hagnaður er reiknaður út. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 voru þau áætluð 7,4 milljarðar króna og á yfirstandandi fiskveiðiári er það áætlað 4,8 milljarðar króna. Það er um átta milljörðum króna minna en þau voru fiskveiðiárið 2012/2013, þegar þau voru 12,8 milljarðar króna. Veiðigjöldin sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða til ríkissjóðs hafa því lækkað um átta milljarða króna á sama tíma og fyrirtækin hafa hagnast með fordæmalausum hætti.
Algjör viðsnúningur
Eigið fé íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var rúmlega 220 milljarðar króna í lok árs 2015. Það var neikvætt um 80 milljarða króna í lok árs 2008 og jókst því um rúmlega 300 milljarða króna frá þeim tíma. Þá á eftir að taka tillit til þeirra 54,3 milljarða króna sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér út í arð frá byrjun árs 2010 og til loka árs 2015, enda hafa þeir peningar verið greiddir út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum til eigenda þeirra. Alls voru 38,2 milljarðar króna greiddir í arð árin 2013, 2014 og 2015.
Þegar sú upphæð er lögð saman við eigið féð hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um rúmlega 354 milljarða króna á örfáum árum.
Ytri skilyrði voru atvinnuveginum mjög hagstæð á árinu 2015. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum hækkaði um 6,5 prósent frá fyrra ári og verð á olíu í íslenskum krónum lækkaði að meðaltali um 17 prósent á milli ára. Gengi dollarans styrkist um 12,9 prósent en gengi evrunnar seig um 5,5 prósent á milli ára. „Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild jókst um 8,5 prósent, og nam 265 milljörðum króna á árinu 2015, verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi hækkaði um rúm 7 prósent og magn útfluttra sjávarafurða jókst um rúmt 1 prósent.“
Ytri skilyrðin voru hins vegar ekki jafn hagstæð á árinu 2016 og það sem af er árinu 2017, vegna styrkingu krónunnar.