Ólafur Ólafsson segir að hvorki ríkið né almenningur hafi verið verr sett vegna baksamninga sem hann og aðrir gerðu í tengslum við kaup Hauck & Aufhäuser á 45,8 prósenta hlut í Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003. Hann segir að til að koma í veg fyrir ágreining „um eignasölu ríkisins í 15 ár eins og í þessu tilfelli skulu stjórnvöld standa þannig að málum, bæði gagnvart kaupendum og almenningi, að leikreglur séu fyrir fram ákveðnar og atriði, sem ekki skipta máli, verði ekki gerð að aðalatriðum máls síðar.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi.
Þar segir Ólafur enn fremur: „Það sem á fundi rannsóknarnefndar voru nefndir baksamningar voru samningar milli einkaaðila og höfðu engin áhrif á niðurstöðu í sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum. Hvorki ríkissjóður né almenningur voru verr settir vegna þessara samninga, sem rannsóknarnefndin kýs að kalla blekkingu. Samningarnir, eins og þeim er lýst í skýrslunni, snúa að fjármögnun á hlut Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum, áhættu og hvernig hagnaði, ef af yrði en ekkert lá fyrir um, væri skipt. Hagnaðurinn kom til vegna hækkunar á hlutabréfaverði á tveggja ára tímabili en ekki vegna meintra blekkinga.“
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kom fram að ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Í skýrslunni segir enn fremur: „Síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga gerðu það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.“