Ný skýrsla varpar ljósi á það hvernig lönd innan Evrópusambandsins standa sig í að efna Parísarsáttmálann. Löndin 27 bera ábyrgð á 60 prósent losunar gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en samkvæmt skýrslunni eru aðeins þrjú lönd sem eru á réttri braut: Svíþjóð, Þýskaland og Frakkland.
Markmið Parísarsáttmálans er að halda hlýnun Jarðar í innan við 2°C og var það markmið landa í Evrópu að minnka losun koltvísýrings um 40 prósent fyrir árið 2030. Samkvæmt skýrslunni, sem unnin var af Carbon Market Watch, virðist þó vera að flest aðildarríkja Evrópusambandsins vinni ekki markvisst að því að efna sáttmálann.
Skýrslan byggir á því að gefa hverju landi fyrir sig stig fyrir ólíka þætti sáttmálans sem vegin eru á móti mikilvægi þeirra. Gögnin voru fengin úr opinberum skjölum, yfirlýsingum ráðherra og skjölum sem skilað var inn til vinnuhóps um umhverfismál innan Evrópusambandsins.
Í stigagjöfinni trónir Svíþjóð á toppnum með 67 stig af 100. Þar á eftir kemur Þýskaland með 54 stig og Frakkland með 53 stig. Meðal þeirra landa sem standa sig hvað verst í loftslagsmálum eru Írland sem aðeins fær 13 stig, þrátt fyrir að markmið landsins hafi verið að draga úr losun um aðeins eitt prósent til ársins 2030, Ítalía sem fær 9 stig af 100 og Pólland með aðeins 2 stig.