Að minnsta kosti tíu eru taldir látnir eftir að sprenging varð í neðanjarðarlest í St. Pétursborg í Rússlandi í dag.
Fréttir eru enn óljósar en rússneskir miðlar sögðu ýmist að ein eða tvær sprengingar hafi orðið, annars vegar á Sennaya Ploschad lestarstöðinni og hins vegar Tekhnologichesky Institut. Báðar stöðvarnar eru í miðborg þessarar annarrar stærstu borgar Rússlands. Nýjustu fréttir herma hins vegar að aðeins hafi orðið ein sprenging en hún hafi orðið á milli þessara tveggja stöðva.
Fimmtíu eru sagðir hafa slasast í sprengingunni til viðbótar við þá tíu sem eru sagðir látnir.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti var í St. Pétursborg en er nú kominn út fyrir borgina. Hann sagði of snemmt að segja til um orsakirnar en sagði mögulegt að um hryðjuverk eða annars konar glæp væri að ræða.