Norska samkeppniseftirlitið hefur stöðvað kaup Eimskips á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines. Samkvæmt ákvörðun samkeppniseftirlitsins hefðu kaupin haft veruleg hamlandi áhrif á samkeppni í flutningi á frystum fiski með frystitogurum frá Norður-Noregi til Norður-Evrópu.
Eimskip og Nor Lines eru samkeppnisaðilar og eru tvö stærstu fyrirtækin á þessum markaði. Samanlagt hafa fyrirtækin stóran hluta markaðarins, en nú þegar séu fáir samkeppnisaðilar á markaðnum. Mat norska samkeppniseftirlitsins var það að Eimskip myndi geta hækkað verð eða minnkað gæðakröfur ef sameiningin ætti sér stað.
Í tilkynningu sem Eimskip sendi til Kauphallar í morgun kemur fram að félagið muni leita annarra leiða til að þróa og efla starfsemi sína í Noregi. „Þessi niðurstaða er félaginu mikil vonbrigði þar sem norsk samkeppnisyfirvöld horfðu mjög þröngt á markaðinn og telja Eimskip vera markaðsleiðandi í flutningum á frystum fiski í Norður Noregi. Ég tel að samkeppnisyfirvöld hafi gert mistök með þessari þröngsýnu ákvörðun sinni,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í tilkynningunni til Kauphallar.
Tilkynnt var um fyrirhuguð kaup Eimskips á Nor Lines í nóvember síðastliðnum.