Fréttablaðið greinir frá því á forsíðu í dag að nýir aðilar séu á leið inn í hluthafahóp Fréttatímans, fríblaðs sem kemur sem stendur út tvisvar í viku. Þar segir að Gunnar Smári Egilsson, sem er stærsti einstaki eigandi útgáfufélags Fréttatímans og annar ritstjóra blaðsins muni samhliða hverfa frá og hætta öllum afskiptum af blaðinu.
Starfsmannafundur var haldinn í gærmorgun á Fréttatímanum þar sem farið var yfir stöðu mála. Hluti starfsfólks hefur ekki fengið greidd laun þrátt fyrir að í dag sé 6. apríl.
Gunnar Smári greindi sjálfur frá því í stöðuuppfærslu á Facebook um miðjan febrúar að endurskipulagning á rekstri Fréttatímans stæði yfir og að framtíð hans væri óljós. Hann hafði þá nýverið sett í loftið tilraun til að breyta varanlega grunni Fréttatímans, með því að efna til stofnunar vettvangs sem ber nafnið Frjáls fjölmiðlun. Þeir sem ákváðu að gerast stofnfélagar að vettvangnum var boðið að greiða fyrir rekstrargrundvöll Fréttatímans.
Nýir eigendur keyptu allt hlutafé í móðurfélagi Fréttatímans í nóvember 2015. Gunnar Smári leiddi þann hóp en með voru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Auk þess var Valdimar Birgisson áfram í eigendahópnum. Tilkynnt var í janúar að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfufélaginu til annarra hluthafa. Eftir viðskiptin voru hluthafarnir þrír: þeir Gunnar Smári, Sigurður Gísli og Valdimar.