Staðfest hefur verið að þrír eru látnir og átta eru slasaðir eftir að vörubíl var ekið á gangandi vegfarendur við Drottningargötu í miðborg Stokkhólms rétt í þessu. Lögreglan í Stokkhólmi sagði við sænska ríkisútvarpið SVT að óttast sé að um hryðjuverkaárás sé að ræða.
Misvísandi fréttir eru af mannfalli, en sumir sænskir fjölmiðlar segja að fimm séu látnir.
„Ráðist hefur verið á Svíþjóð. Allt bendir til hryðjuverka,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, við fjölmiðla rétt í þessu. Hann sagði að einn hefði verið handtekinn, og hvatti til þess að fólk héldi ró sinni.
Vitni sem sænskir fjölmiðlar hafa rætt við segja að vörubílnum hafi verið ekið á fullri ferð á vöruhúsið Ählens. Vörubílnum var rænt á meðan bílstjóri hans var að afferma hann, en ekki hefur verið sagt frá því hvar þetta átti sér stað eða hvenær.
Lögregla biður fólk um að halda sig heima eða innandyra. Búið er að loka þinghúsinu í Stokkhólmi og girða það af. Þá liggja allar almenningssamgöngur niðri, en aðallestarstöðin er mjög skammt frá Drottningargötunni.
Fjölmargir Íslendingar eru búsettir í Stokkhólmi og hefur utanríkisráðuneytið beðið um að fólk láti vita af sér.