Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ), The McClatchy Company og Miami Herald fengu í dag hin virtu Pulitzer-verðlaun fyrir umfjöllun um Panamaskjölin vorið 2016. Fjölmiðlarnir þrír fengu verðlaunin fyrir samtals tíu greinar sem unnar voru upp úr skjölum sem lekið var frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panaman. Á meðal þeirra var grein sem fjallaði um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu hans, og aflandsfélagið Wintris, sem þau áttu saman. RÚV greinir frá.
Vinna við umfjöllun um Panamaskjölin stóð yfir mánuðum saman og tóku hundruð blaðamanna víða um heim þátt í henni. ICIJ, samtökin sem leiddu vinnuna ásamt þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung, birtu frétt um eignir þjóðarleiðtoga, íþróttastjarna og glæpamanna í þekktum skattaskjólum að kvöldi sunnudagsins 3. apríl 2016.
Sama kvöld var sýndur frægur samstarfsþáttur Kastljóss, Reykjavik Media og sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning. Þar var meðal annars birt frægt viðtal við Sigmund Davíð þar sem hann var spurður út í Wintris. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl 2016 vegna málsins.
Sigmundur Davíð hefur ítrekað haldið því fram að fréttaflutningurinn hafi verið samsæri alþjóðlegra fjármálaafla og fjölmiðla um að koma sér úr embætti.
Hægt er að lesa umfjöllun ICIJ um verðlaunin hér.