Átta manns voru í dag dæmd til refsingar í Héraðsdómi Reykjaness fyrir sinn þátt í fjársvikamáli sem kom fyrst upp árið 2010. Ákæra í málinu var gefið út fyrir um ári síðan. Halldór Jörgen Gunnarsson hlaut þyngsta dóminn, fjögurra ára fangelsi. Stærsti hluti dóms hans er þó skilorðsbundinn, eða þrjú ár. Hann er fyrrverandi starfsmaður embættis Ríkisskattstjóra og liðkaði fyrir brotunum með því að misnota aðstöðu sína í starfi. Þess vegna gerðist hann sekur um brot í opinberu starfi og hlaut þar af leiðandi þyngstu refsinguna. RÚV greinir frá.
Sá sem hlaut næst þyngsta dóminn er Steingrímur Þ. Ólafsson, sem hlaut tveggja og hálfs árs skilorðsbundinn dóm. Hann var talinn vera höfuðpaurinn í málinu. Auk þeirra tveggja hlutu fjórir karlar og tvær konur vægari skilorðsbundna dóma.
Fjársvikin sem fólkið var dæmt fyrir voru með þeim hætti að það setti upp sýndarfyrirtæki í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr virðisaukaskattskerfinu. Það var gert vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei risu. Með því að falsa gögn og nýta sér aðstöðu fyrrverandi starfsmanna Ríkisskattstjóra fengu sýndarfyrirtækin sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti á meðan að á ímyndaðri uppbyggingu húsanna stóð. Þannig tókst að svíkja um 278 milljónir króna úr virðisaukaskattskerfi.