Fólk ætti að fara varlega í fyrstu íbúðakaupum í því ástandi sem nú er þegar íbúðaskortur ríkir, segir Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. Þá segir hún að spár um fasteignahækkanir ýta undir fasteignabólu.
Þetta kemur fram í viðtali Unu við RÚV um stöðu og horfur á fasteignamarkði.
Fasteignaverð hefur hækkað mikið að undanförnu, eða um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum, miðað við tölur Hagstofunnar frá því í febrúar.
Ástæða verðhækkana er ekki síst sú að mikil vöntun er á íbúðum inn á markað á tímum þar sem eftirspurn er mikil og kaupmáttur hjá almenningi hefur farið batnandi. Hvergi í heiminum hefur fasteignaverð hækkað hraðar en á höfuðborgarsvæðinu.
Uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn húsnæðis á Íslandi er um 4.600 íbúðir, sé tekið tillit til þess að um 1.600 íbúðir séu á hverjum tíma í skammtímaútleigu til ferðamanna. Heildarþörf á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu þremur árum er talin vera um níu þúsund íbúðir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu sem Íbúðalánasjóður hefur unnið að beiðni Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um vöntun á húsnæðismarkaði á Íslandi.
Þar segir enn fremur að fjölgun eigna hafi ekki haldist í hendur við mannfjöldaþróun í landinu á undanförnum árum. Greining sjóðsins er hluti af ítarlegri greiningu á stöðu húsnæðismála á landinu sem Íbúðalánasjóður annast fyrir aðgerðahóp um húsnæðisvandann sem fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja í. Hópurinn mun skila tillögum um úrbætur í húsnæðismálum í maí.