Húsnæðisverð hækkaði um 20,9 prósent á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, sem tekur saman verðþróun fasteigna upp úr þinglýstum kaupsamningum og mælir þróun fermetraverðs. Hækkunin hefur verið óvenju mikil horft til síðustu þriggja mánaða en verðið hefur hækkað um 7,1 prósent á því tímabili.
Það þýðir að íbúð sem hafði markaðsverð upp á 30 milljónir fyrir þremur mánuðum hefur nú verðmiða upp á 32,1 milljón. Íbúð sem keypt var fyrir ári á 30 milljónir er með verðmiða upp á 36,3 milljónir í dag, miðað við þessa meðaltalshækkun á fermetra. Hækkunin hefur hins vegar verið misjöfn eftir svæðum. Mest er hún miðsvæðis í Reykjavík og í nágrenni þess.
Mikill skortur á íbúðum, samhliða miklum kaupmætti launa og vexti í ferðaþjónustunni, hefur leitt til þess að verð hefur hækkað mikið á skömmum tíma. Stjórnvöld og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa að undanförnu unnið að því að bregðast við stöðunni, með því að hraða uppbyggingu íbúða.
Uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn húsnæðis á Íslandi er um 4.600 íbúðir, sé tekið tillit til þess að um 1.600 íbúðir séu á hverjum tíma í skammtímaútleigu til ferðamanna.
Heildarþörf á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu þremur árum er talin vera um níu þúsund íbúðir, samkvæmt nýrri greiningu sem Íbúðalánasjóður hefur unnið að beiðni Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um vöntun á húsnæðismarkaði á Íslandi. Greiningin er hluti af heildstæðari áætlun stjórnvalda um að auka framboð á litlum og meðalstórum íbúðum. Meðal þess sem horft er til er að breyta byggingarreglugerðum þannig að auðveldara verði að byggja og einnig að leggja til lóðir, meðal annars sem ríkið á, sem mætti byrja fljótt að byggja á.
Þenslan á fasteignamarkaðnum hefur verið mikil á höfuðborgarsvæðinu, en verð hefur einnig hækkað mikið á landsbyggðinni, þar sem víða er húsnæðisskortur. Þar er vandamálið meðal annars það, að byggingarkostnaður er víða enn töluvert umfram markaðsverð og hefur því ekki tekist að byggja upp íbúðir á sama tíma og eftirspurn hefur verið að aukast, meðal annars vegna uppgangs í ferðaþjónustu.
Stéttarfélög, sveitarfélög og ríki, ásamt einstaka fyrirtækjum, hafa því verið að huga að samstarfi um uppbyggingu til að bregðast við húsnæðisskortinum. Þannig hafa fyrirtæki IKEA og Skinney Þinganes, svo dæmi séu tekin, ákveðið að byggja íbúðir fyrir starfsfólk sitt þar sem erfiðlega hefur gengið fyrir það að fá húsnæði.
Flestar spár greinenda gera ráð fyrir því að fasteignaverð haldi áfram að hækka á næstu misserum