Flugfélag Íslands hefur ákveðið að selja allar fjórar Fokker 50-flugvélar félagsins og kaupa eina Bombardier Dash 8-Q200 flugvél í þeirra stað.
Kanadíska félagið Avmax er kaupandi vélanna auk varahluta í eigu Flugfélags Íslands. Avmax er einnig seljandi Bombardier-vélarinnar.
Flugfélagið tók á móti þremur notuðum Bombardier Dash 8-Q400 flugvélum vorið 2016 sem áttu að taka við af Fokker-vélunum sem höfðu þá sinnt innanlandsflugi á Íslandi síðan fyrsta vélin af þeirri gerð kom hingað til lands árið 1992.
Kjarninn greindi frá því í frétt sumarið 2105 að þá hafi ætlunin verið að taka allar fimm Fokker-vélarnar alfarið úr áætlunarflugi um miðjan mars árið 2016.
Í samtali við Kjarnann í dag segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, að það hafi tekið aðeins lengri tíma að selja Fokker-vélarnar en lagt var upp með. „Það er samt að mörgu leyti eðlilegt því þetta er stór markaður,“ segir Árni. Hann segir að vélarnar hafi staðið í geymslu og verið til sýnis síðan í maí í fyrra.
Samningurinn við Avmax felur í sér skipti á Bombardier-vélinni og fjórum Fokker-vélum, auk peningagreiðslu til Flugfélags Íslands segir Árni.
Flugfélag Íslands verður eftir þessar breytingar með tvær tegundir Bombardier-flugvéla í áætlunarflugi sínu. Það er stærri gerðin, Dash 8-Q400, sem tekur allt að 76 manns í sæti og svo minni gerðin, Dash 8-Q200, sem tekur 37 manns í sæti.
Flugfloti flugfélagsins mun nú samanstanda af þremur Dash 8-Q400 og þremur Dash 8-Q200.
Þeir sem hafa flogið til Ísafjarðar hafa eflaust flogið í minni flugvélinni enda er sú stærri of löng til þess að geta lent á Ísafjarðarflugvelli.
Á vef Flugfélags Íslands má lesa um ástæður þess að flugfélagið tók ákvörðun um að losa sig við Fokker-vélarnar. Þær hafi allar verið að árgerð 1991 og 1992 og þess vegna komnar til ára sinna, auk þess sem að Fokker-fyrirtækið hollenska, hafi farið á hausinn árið 1996 og þess vegna dýrara að reka vélarnar.
Í tilkynningu flugfélagsins um kaupin á þriðju Q200-vélinni er haft eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, að um sé að ræða mikilvægan áfanga til þess að efla Flugfélag Íslands enn frekar. Með þessari viðbót muni sveiganleiki félagsins aukast og ný tækifæri skapast til þess að bæta leiðakerfið.
Flogið til Akureyrar frá Keflavík
Flugfélag Íslands flýgur nú á 17 áfangastaði í fjórum löndum auk Íslands. Með tilkomu stærri gerðar Bombardier-vélanna í flugflotann varð það mögulegt fyrir flugfélagið að fljúga til áfangastaða lengra í burtu enda er Dash 8-Q400 vélin langdrægari en Fokker-vélarnar.
Síðan í febrúar hefur flugfélagið flogið áætlunarflug sex daga vikunnar frá Keflavík til Akureyrar, meðal annars í þeim tilgangi að bjóða ferðamönnum sem koma til landsins einfalda leið norður í land.
Spurður hvernig Flugfélagi Íslands hafi gengið að færa aukinn fjölda ferðamanna hér á landi í not segir Árni það hafa tekist ágætlega. „Fyrir nokkrum árum var hlutdeild ferðamanna í innanlandflugi um fimm prósent á ársgrundvelli, en það er eitthvað um 20 prósent núna,“ segir Árni. „Það er svona í samræmi við sambærilega þjónustu sem við höfum skoðað.“
Árni segir það hins vegar aðeins dýrara að bjóða upp á flugleiðir frá Keflavík því það sé einfaldlega dýrara að fá aðstöðu á Miðnesheiði.