Ríkisendurskoðun viðurkennir að „viss mistök“ hafi verið gerð í skýrslu um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum sem kom út fyrir fjórum árum síðan. Skýrslan var mikið rædd af stjórnmálamönnum og var meðal annars grundvöllur umfangsmikilla lagabreytinga þar sem eftirlit með lífeyrisþegum var hert.
Fjallað var um málið í Kastljósi í síðasta mánuði, en þar kom fram að fátt benti til annars en að Ríkisendurskoðun hafi stórlega ofmetið möguleg bótasvik skjólstæðinga Tryggingastofnunar í skýrslunni. Í skýrslunni kom fram að bótasvik gætu numið hátt í fjórum milljörðum króna á hverju ári. Í skýrslunni var vísað til danskrar skýrslu um bótasvik, og byggt á niðurstöðum hennar um að umfang bótasvika og misgreiðslna væri 3 til 5 prósent.
Í ljós hefur komið að danska skýrslan byggðist ekki á rannsókn heldur að miklu leyti á skoðanakönnun meðal starfsmanna sveitarfélaga og almennings um hvað þeir álitu umfangið vera. Í annarri skýrslu sem Deloitte gerði fyrir dönsk stjórnvöld á svipuðum tíma kom hins vegar fram að hlutfallið væri undir einu prósenti.
Ríkisendurskoðun hefur nú gefið út fréttatilkynningu vegna umfjöllunar Kastljóss og umræðu í kjölfarið. Þar gengst stofnunin við því að hafa gert mistök. „Meginmistökin felast annars vegar í því að hafa ekki tilgreint sérstaklega í skýrslunni hvernig staðið var að tiltekinni úttekt sem Ríkisendurskoðun vísar í á umfangi hugsanlegra bótasvika og ofgreiðslna í Danmörku árið 2011 og hins vegar fyrir að hafa þýtt ranglega eitt hugtak sem þar kemur fram. Ríkisendurskoðun biðst velvirðingar á þeim misökum. Einnig þykir stofnuninni miður að í fréttatilkynningu hennar um skýrsluna hafi ekki verið sleginn sami skýri varnagli og í skýrslunni sjálfri um hugsanlegt umfang bótasvika hér á landi ef það væri sambærilegt við umfang bótasvika í Danmörku, eins og það var áætlað í áðurnefndri úttekt.“
Að öðru leyti segist stofnunin standa við meginniðurstöðurnar í skýrslunni, og vísar því „sérstaklega á bug að niðurstöður skýrslunnar litist af persónulegum skoðunum skýrsluhöfunda eða jafnvel pólitískum sjónarmiðum, eins og gefið hefur verið í skyn. Stofnunin ber á hinn bóginn ekki ábyrgð á hvernig almenningur, fjölmiðlar eða stjórnmálamenn lásu og túlkuðu skýrsluna á sínum tíma.“
Þá segir Ríkisendurskoðun að umræðan um málið byggist aðeins á einum hluta skýrslunnar, það er um mögulegt umfang bótasvika. Meginmarkmiðið hafi hins vegar verið að kanna eftirlit Tryggingastofnunar með bóta- og lífeyrisgreiðslum.