Hafið er yfir allan vafa að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafi brotið gegn lögreglumanni með hegðun sinni í garð hans.
Þetta er niðurstaða vinnustaðasálfræðings sem innanríkisráðuneytið fékk til þess að fara yfir kvörtun lögreglumannsins, en greint er frá málinu á vef RÚV.
Að mati vinnustaðasálfræðingsins var ekki um að ræða einelti heldur áreiti og sértæk tilvik rakin í skýrslu sem skilað var til innanríkisráðuneytisins.
Í frétt RÚV segir að lögreglumaðurinn hafi sent ítarlegt bréf til innanríkisráðuneytisins í ágúst á síðasta ári þar sem hann kvartaði undan hegðun Sigríðar Bjarkar. „Í kvörtuninni kom meðal annars fram að hann og aðrir í fjölskyldunni hefðu þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna framgöngu lögreglustjórans og að embættið hefði greitt kostnaðinn vegna þeirrar meðferðar,“ segir í frétt RÚV.
Innanríkisráðuneytið skipaði vinnustaðasálfræðing í byrjun september í fyrra til að fara yfir málið og ræddi hann bæði við lögreglumanninn, lögreglustjórann og sextán aðra lögreglumenn.
Sálfræðingurinn skilaði síðan af sér skýrslu um miðjan febrúar á þessu ári. Í skýrslunni eru tilgreind tólf atvik sérstaklega, af því er segir í frétt RÚV. Sagði sálfræðingurinn að ekki væri hægt að flokka níu þeirra sem einelti og var þeim því vísað frá, en í þremur tilvikum hafi það verið hafið yfir allan vafa að Sigríður Björk hefði með framgöngu sinni brotið gegn lögreglumanninum.
„Í einu þessara tilvika skammaði Sigríður Björk lögreglumanninn og ávítti hann með hávaða og æsingi og hlustaði ekki á hann. Annað tilvik snerist um að Sigríður segði að lögreglumaðurinn gæti ekki lengur gegnt stöðu lögreglufulltrúa innan miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar og þriðja tilvikið sneri að ferð á lögreglunámskeið í Búdapest sem lögreglumaðurinn átti að sækja en lögreglustjórinn ákvað að hann færi ekki,“ segir í umfjöllun RÚV.