Vísindamenn hafa þróað tækni sem heldur lömbum sem fæðst hafa fyrir tímann lifandi í nokkrar vikur í einskonar "plastpokalegi" sem líkir eftir aðstæðum í móðurkviði. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að nýta tæknina til að hjálpa fyrirburum að þroskast áfram utan móðurkviðs.
Í dag er fyrirburum komið fyrir í hitakössum og öndunarvélum til að auka líkur á því að börnin nái að þroskast eðlilega utan móðukviðs. Þrátt fyrir þá tækni sem er til staðar í dag eru lífslíkur barna sem fæðast við 23 viku aðeins um 15%, 55% við 24 viku og 80% við 25 viku. Það var því ætlun rannsóknarhópsins þróa tækni með það í huga að auka lífslíkur barna sem fæðast langt fyrir tímann og hjálpa þeim að halda áfram að þroskast og vaxa á sem eðlilegastan hátt.
Gervi-móðurkviðurinn var hannaður með það í huga að hann væri sem líkastur aðstæðum í legi móðurinnar. Í honum er að finna blöndu af volgu vatni og söltum sem svipar til legvatns og gegnir því hlutverki að vernda fóstrið. Vatnsblandan er endurnýjuð reglulega til að halda blöndunni hreinni.
Til að fá nægilegt súrefni í gegnum naflastrenginn var tæki sem tók að sér hlutverk legkökunnar tengt var við naflastrenginn. Hjarta lambsins pumpaði því blóði úr líkama sínum í tækið sem endurnýjaði það og sendir það aftur í gegnum naflastrenginn til lambsins.
Lömbin sem notuð voru í rannsókninni voru tekin úr móðurkvið við svipað þroskastig og mannsbarn á 23 viku. Lömbin virtust þroskast eðlilega í pokanum og voru fjarlægð úr honum eftir 28 daga, þegar lungu þeirra höfðu þroskast nægilega vel.
Til að kanna áhrif tækisins voru lömbin aflífuð eftir að þau voru fjarlægð úr pokanum til að hægt væri að skoða heila þeirra og líffæri og meta þroska þeirra. Síðar í rannsóknarferlinu fengu lömbin að lifa lengur og virtust þau þroskast á eðlilegan hátt.
Þessi nýja tækni er ekki gallalaus og fylgir henni til dæmis aukin hætt á sýkingu, samanborið við leg móðurinnar auk þess sem erfitt er að áætla rétt magn hormóna og næringarefna til að dæla inn í pokann. Þrátt fyrir að áskoranirnar séu margar vekja niðurstöðurnar vonir um að tæknin geti nýst til að auka lífslíkur fyrirbura í framtíðinni. Næstu skref felast í því að prófa tæknina áfram á dýrum en enn er langt í að tæknin geti nýst börnum.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature Communications fyrr í vikunni.