Ríkisendurskoðun hvetur menntamálaráðuneytið til að uppfæra reiknilíkan sem notað er við útreikninga fjárframlaga til framhaldsskólanna. Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur framhaldsskóla frá árinu 2014 kemur fram að forsendur reiknilíkansins hafi ekki verið uppfærðar síðan 2003.
Menntamálaráðuneytið hóf vinnu árið 2014 við endurskoðun á reiknilíkaninu og samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis mun þeirri vinnu ljúka í fyrsta lagi á næsta ári. Reiknilíkanið var tekið í notkun árið 1998 og segir í reglugerð frá 1999 að líkanið eigi að endurskoða í heild sinni á að minnsta kosti fjögurra ára fresti.
Áætlanir um meðallaun samræmast ekki raunveruleikanum
Í reglugerðinni segir að ráðherra geti breytt forsendum líkansins hverju sinni og hefur launastiku þess verið breytt reglulega. Launastikunni er ætlað að endurspegla raunveruleg meðallaun kennara en breytingar á henni hafa valdið því að mikill munur er á launastikunni og raunverulegum meðallaunum kennara.
Árið 2012 var launastikan lækkuð þannig að hún var 24 prósentum lægri en raunveruleg laun kennara og hafði verið 11,5 prósent lægri árið áður. Launastikan var hækkuð aftur um 55,5 prósent milli árana 2015-2016 og er nú 5 prósentum frá raunverulegum meðallaunum kennara.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að lækkun launastikunar sé viðbragð menntamálaráðuneytisins við niðurskurði og að lækkunin valdi því að áhrif niðurskurðar dreifist jafnt á alla skóla. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að „að mati Ríkisendurskoðunar er flatur niðurskurður af þessum toga vafasamur. Ekki aðeins leggst hann misþungt á einstaka skóla og mest á bóknámsskóla þar sem laun vega hlutfallslega þyngst heldur vinnur hann einnig gegn þeirri viðleitni að forgangsraða í skólakerfinu og taka á vandamálum einstakra skóla.“
Notkun reiknilíkansins í andstöðu við tilgang þess
Samkvæmt reglugerð eiga forsendur reiknilíkansins að skiptast í tvennt. Annars vegar almennar forsendur sem ná til allra skóla og hins vegar forsendur sem eiga að taka tillit til sérstöðu skóla.
Einnig er tekið fram að hlutverk reiknilíkansins sé að „tryggja jafnræði skóla til fjárveitinga í samræmi við stærð, gerð, staðsetningu og samsetningu náms. Líkanið skal tryggja eftir því sem frekast er unnt faglegt starf skólanna um leið og það stuðlar að aðhaldi í meðferð fjármuna vegna kennslu, rekstrar og stofnkostnaðar. Í gerð líkansins skulu felast möguleikar til þess að auka eða draga úr stuðningi við tiltekin markmið skólastarfs með samræmdum hætti um leið og unnt verði með hliðstæðum hætti að taka tillit til sérstakra aðstæðna“.
Í umfjöllun Kjarnans um stöðu Menntaskólans við Sund (MS) bendir Már Vilhjálmsson, rektor MS, á að skólinn standi frammi fyrir því að geta ekki tekið inn nemendur vegna þess að áætlanir um brottfall nemenda stóðust ekki.
„Það virðist vanta einhvern sveigjanleika í kerfinu að bregðast við,“ sagði Már. „Vegna þess að nemendur fá val. Þeir fá val um að velja sér skóla og brautir og svo framvegis. Þá er voðalega erfitt að vera með þetta svona niðurneglt að segja bara svona er þetta alveg sama hvað þeir vilja.“
Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis er útdeiling fjármuna samkvæmt núgildandi reiknilíkani hvorki til þess fallið að tryggja jafnræði skólanna né að fjármagna alla rekstrarþætti þeirra. Stofnunin hvetur ráðuneytið „til að ljúka vinnu við endurskoðun reiknilíkansins, nýta það til að jafna stöðu skólanna og tryggja þeim fjármögnun samkvæmt raunhæfum áætlunum og raunverulegum launakostnaði“.