Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs Group, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Virðingar hf.. Hann tekur við starfinu af Ármanni Þorvalssyni sem var ráðinn forstjóri Kviku banka fyrir skemmstu.
Gunnar hefur starfað hjá Virðingu síðan 2015. Þá hefur Bjarki
Logason verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, en hann hefur
starfað hjá Virðingu og áður Auði Capital frá árinu 2009. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Virðingu.
Gunnar hefur stýrt skrifstofu Virðingar í London og verður sú skrifstofa nú færð undir fyrirtækjaráðgjöf Virðingar. Hann mun hafa aðstöðu í báðum löndum. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir að verkefnastaða Virðingar í London hafi aukist jafnt og þétt. „Það er því rökrétt skref að efla fyrirtækjaráðgjöfina með þessum hætti og framundan er enn frekari styrking á þessu sviði.“
Stjórnir Virðingar og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Viðræðurnar gengu hins vegar erfiðlega og í lok mars var tilkynnt að stjórnir Kviku og Virðingar hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna.