Viðmælendur Kjarnans sem koma að kaupum nýrra hluthafa á Pressunni og tengdum fjölmiðlum segja að þær 300 milljónir króna sem tilkynnt hefur verið um að setja ætti inn í samstæðuna dugi ekki til. Gatið sem þurfi að brúa til að gera hana rekstrarhæfa sé nálægt 700 milljónum króna að þeirra mati.
Innan Pressusamstæðunnar eru tæplega 30 miðlar sem birta efni á vef, á dagblaða- og tímaritaformi og í sjónvarpi. Þeirra þekktastir eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Enn er vilji hjá að minnsta kosti hluta þeirra aðila sem ætluðu að setja fé inn í reksturinn til að fjárfesta í samstæðunni og þegar hafa verið lánaðir umtalsverðir fjármunir inn til að gera upp opinber gjöld og lífeyrissjóðsskuldir sem voru í vanskilum, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Eftir að væntanlegum hluthöfum var hleypt að samstæðunni komu hins vegar í ljós allskyns kröfur sem ekki hafði verið greint frá í aðdraganda ætlaðar hlutafjáraukningar auk þess sem rekstrarforsendur hluta þeirra miðla sem heyra undir Pressuna hafi verið mun verri en sagt hafi verið. Einn viðmælandinn sagði að það stæði „ekki steinn yfir steini“ í rekstri Pressunnar og annar sagðist halda að hlutafjárloforð yrðu einfaldlega dregin til baka í ljós mun verri stöðu samstæðunnar en kynnt hefði verið.
Það er til marks um slæma stöðu fyrirtækisins að þeir stjórnarmenn sem tilkynnt var um að setjast ættu í stjórn Pressunnar fyrir tæpum mánuði síðan hafa enn ekki gert það formlega. Þeir vilji ekki bera neina lagalega ábyrgð á samstæðunni eins og hún er í dag.
Ný stjórn ekki tekin við
Tilkynnt var um það 18. apríl að hlutafé útgáfufélagsins Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna. Samhliða átti Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Pressunnar og sá sem leitt hefur yfirtökur hennar á öðrum miðlum undanfarin ár, að stíga til hliðar.
Hann hefur verið bæði stjórnarformaður og útgefandi Pressusamstæðunnar fram að þessu auk þess sem hann stýrir sjónvarpsþættinum Eyjunni, sem var um nokkurra ára skeið á Stöð 2 en er nú sýndur á ÍNN. Björn Ingi átti að láta af öllum stjórnunarstörfum fyrir Pressuna samhliða hlutafjáraukningunni. Hann átti þó áfram stýra sjónvarpsþættinum, en yrði hvorki í stjórn né koma að ritstjórn miðla samstæðunnar lengur.
Ný stjórn var kosin á hluthafafundi þennan sama dag, 18. apríl. Samkvæmt tilkynningu yrði Gunnlaugur Árnason stjórnarformaður. Aðrir sem setjast áttu í stjórn eru Þorvarður Gunnarsson, fyrrum forstjóri Deloitte á Íslandi, Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins TagPlay og Halldór Kristmannsson yfirmaður Samskipta- og markaðssviðs lyfjafyrirtækisins Alvogen. Ekkert þeirra hefur sest formlega í stjórn enn sem komið er.
Félag sem er í eigu Halldórs, Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., ætlaði að verða stærsti eigandi Pressunnar og koma inn með 155 milljónir króna.
Björn Ingi Hrafnsson og viðskiptafélagi hans, Arnar Ægisson, tóku líka þátt í hlutafjáraukningunni og samkvæmt tilkynningunni átti félag í þeirra eigu að leggja fram 50 milljónir króna. Þeir áttu að eiga 14-16 prósent hlut. Félag Hreins Loftssonar, Karls Steinars Óskarssonar og Matthíasar Björnssonar átti svo líka að eignast hlut í Pressunni, en þeir áttu áður Birting. Karl Steinar átti enn fremur að verða framkvæmdastjóri félagsins og Matthías Björnsson fjármálastjóri þess.
Þarf mun meira en upp var látið
Fljótlega eftir að þessi tilkynning var send út kom í ljós að staða Pressusamstæðunnar var verri en kynnt hafði verið fyrir væntanlegum hluthöfum. Viðmælendur Kjarnans segja að nýjar kröfur hafi komið í ljós nánast daglega frá þeim tímapunkti og mikil óráðsía sé í rekstri samstæðunnar. Nýjasta mat geri ráð fyrir að það þurfi að setja nær 700 milljónum króna í reksturinn til að halda honum á floti, en ekki um 300 milljónir króna líkt og kynnt var.
Væntanlegir hluthafar hafa þegar lánað fjármuni inn í Pressuna til að gera upp opinberar skuldir en ekki er búið að greiða allt það hlutafé sem kynnt var í fréttatilkynningunni 18. apríl. Allskyns varnaglar hafi verið settir inn í samkomulagið um hlutafjáraukninguna og segja viðmælendur Kjarnans að þeir varnaglar hafi að mestu verið brotnir nú þegar skýrari mynd af stöðu rekstursins blasi við. Enn sé þó vilji til þess að halda samstæðunni gangandi og unnið er að því að endurskipuleggja reksturinn með það að markmiði. Alls óljóst, og raunar ólíklegt, er hvort allir hluthafarnir sem tilkynnt var um að tækju þátt muni gera það.