Jón Ásgeir Jóhannesson segist oft hafa haft það á tilfinningunni að pottur væri brotinn í íslensku réttarkerfi og að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli hans gegn ríkinu staðfesti þann grun hans.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem Jón Ásgeir sendi fjölmiðlum, og er líka á nýrri vefsíðu sem hann hefur sett í loftið.
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeim Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni. Þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur. Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til sektargreiðslu af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu því verið byggð á sama grunni. Þeir töldu seinna málið því brjóta gegn meginreglunni um bann við endurtekinni málsmeðferð, og undir að tók Mannréttindadómstóllinn. Málinu fyrir hönd Gaums var hins vegar vísað frá.
Jón Ásgeir segir í yfirlýsingunni að hann hafi ekki kynnt sér efni dómsins til hlítar, en að þetta séu virkilega góðar fréttir. Niðurstaðan komi honum ekki á óvart heldur sé hún í samræmi við fyrri dóma mannréttindadómstólsins. „Mér finnst umhugsunarefni að hér á landi var engu breytt í refsimeðferð skattamála þótt mál mitt hefði verið tekið til efnismeðferðar hjá mannréttindadómstólnum og fyrir lægju fordæmi um að íslenska kerfið stæðist ekki. Ríkin í kringum okkur brugðust allt öðru vísi við og reyndi að aðlaga sína framkvæmd niðurstöðum mannréttindadómstólsins. Ég hef barist gegn hinum ýmsu öngum stjórnvalda í réttarsölum landsins undanfarin fimmtán ár og haft það oftar en ekki á tilfinningunni að pottur væri brotin í íslensku réttarkerfi. Niðurstaðan staðfestir þennan grun minn og staðfestir líka sem betur fer að íslenska réttarkerfið er ekki, eitt réttarkerfa í Evrópu, undanþegið Mannréttindasáttamála Evrópu,“ segir Jón Ásgeir í yfirlýsingunni.
Hann segist velta því fyrir sér hvernig stjórnvöld ætli að bregðast við dómnum. „Ætlar einhver að axla ábyrgð á því að mannréttindi einstaklinga á Íslandi hafa verið fótum troðin í réttarsölum undanfarin ár? Munu fyrrverandi eða núverandi ráðherrar og stjórnmálamenn, héraðsdómarar eða hæstaréttardómarar, fyrr- og núverandi, sæta ábyrgð? Ef enginn ber ábyrgð á rangindunum er ég hræddur um að ekkert breytist.“