Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni. Dómstóllinn dæmir ríkið til að greiða þeim fimm þúsund evrur hvorum, auk málskostnaðar vegna málsins.
Jón Ásgeir og Tryggvi voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur. Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til sektargreiðslu af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu því verið byggð á sama grunni.
Þeir töldu seinna málið því brjóta gegn meginreglunni um bann við endurtekinni málsmeðferð, og undir að tók Mannréttindadómstóllinn. Málinu fyrir hönd Gaums var hins vegar vísað frá.
Þegar þeir voru dæmdir í Hæstarétti var Jóni Ásgeiri gert að greiða 62 milljónir króna í sekt og Tryggvi 32 milljónir króna. Þeir fóru fram á að fá þessar upphæðir greiddar frá íslenska ríkinu, en fram kom þó fyrir dómi að þeir höfðu aldrei greitt sektirnar, og því var ekki fallist á það.