Háskóli Íslands og CCP hafa ritað undir rammasamkomulag um samstarf sín á milli. Til stendur að CCP færi höfuðstöðvar sýnar í Grósku sem er nýtt hugmyndahús í uppbyggingu hjá vísindagörðum Háskóla Íslands.
„Það er náttúrulega þannig að það er svo mikið að gerast í þessum geira í sýndarveruleika og slíku á Íslandi, það er ótrúlega gróskumikil þróun þar og CCP stendur þar mjög framarlega. Við hjá Háskólanum sjáum fram á að það séu mikil tækifæri fyrir háskólann. Af hverju ekki að hafa nágranna sem eru framarlega í þróun á ákveðnu tæknisviði ?“ Segir Einar Mäntylä verkefnisstjóri nýsköpunar hjá Háskóla Íslands.
Einar telur möguleikana sem felast í samstarfinu vera fjölmarga. Tæknin sem CCP er að þróa til dæmis í sýndarveruleika muni koma til með að breyta miðlun efnis og bjóði upp á fjölmarga möguleika til að mynda í safnafræðum, þróun á söfnum og þess háttar. „Við sjáum fram á að þetta geti breytt miðlun efnis það verði ekki bara á prenti, það verðu hægt að vinna úr efnivið og fræða, kynna fræðilegt efni á nýjan hátt fyrir nýjum kynslóðum“.
Hann bendir á að þar sem sýndarveruleikinn spilar á skynfærin væri einnig hægt að notast við hann í sálfræði rannsóknum. „Það eru nú þegar rannsóknir í gangi þar sem að Íslensk erfða greining og fleiri eiga þátt í um lofthræðslu.“ Einar telur að hægt verði að nýta tækniþróun CCP á öllum fræðasviðum að einhverju leyti allt frá læknavísindum til þjóðháttafræði. „Það á bara eftir að koma í ljós hvað fræðimenn eru fljótir að tileinka sér þetta.“ Segir hann.
Samstarf í þróun
„Þetta er ramma samningur um að efla samstarf sín á milli. Í praktíkinni verður það þannig að sett verður á laggirnar samstarfsnefnd sem sér um að velja verkefni og forgangsraða vænlegustu samstarfsverkefnunum og nemendaverkefnum.“ Segir Einar
Einnig stendur til að skoða hvernig sérfræðingar CCP geta komið að rannsóknartengdu námi og tengja þá við sérfræðinga við nám. Einar segir ávinninginn ekki aðeins vera háskólans heldur geti „háskólinn tengt CCP við alþjóðlegar rannsókna umsóknir til dæmis styrkja umsóknir. Sækja í evrópska sjóði og vera með í fjölþjóðlegum rannsóknum þar sem þeirra sérþekking kemur að málum líka. Þannig við erum að opna á mjög víðtækt samstarf.“
Vísindasetrið í Vatnsmýrinni
Flutningur CCP í Vatnsmýrina er hluti af uppbyggingar starfi Vísindagarða Háskóla Íslands. Á vef Vísindagarðanna segir að hlutverk þeirra sé „að vera alþjóðlega viðurkenndur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélags á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð.“
Gróska er nýjasta bygging vísindagarðanna en fyrir eru sex byggingar. Hús Íslenskrar erfðagreiningar, Alvotech húsið og fjórar byggingar, sem saman telja 300 íbúðir, í eigu Félagsstofnunar stúdenta. Stefnt er að því að Gróska verði tekin í notkun í október á næsta ári.
Í viðtali við stúdentafréttir segir Eiríkur Hilmarson framkvæmdarstjóri vísindagarðanna að Gróska sé hugmynda hús sem verði sérhæft á upplýsinga og fjarskiptatækni sviði líkt og Alvotech húsið sé sérhæft á lyfjatæknisviði.
Hann segir að CCP verði ekki eingöngu með starfsemi í húsinu þótt þeir verði stærsta fyrirtækið „CCP verður með 20 til 25 prósent af húsinu en það verða fjölmörg önnur fyrirtæki.“ Í húsinu verði einnig frumkvöðla setur og segir Eiríkur að það muni fá gott rými og reiknað er með að einhver frumkvöðla fyrirtæki verði þar með starfsemi.
Þegar bygging Grósku er lokið stendur til að byggja nýtt hús þar sem starfsemi á sviði sameinda vísinda mun fara fram. Alvotech er nú þegar farið að taka þátt í kennslu í lyfjafræði. Eiríkur segir að þar hafi verið komið inn „með nýja þekkingu sem ekki var til staðar í deildinni.“
Eiríkur segir að þegar uppbygging vísindagarðanna verður lokið verði „hjartað í þessu samfélagi hús sem Vísindagarðar munu byggja og eiga. Þar fyrir framan verður útitorg sem mun heita Jónasar Hallgrímssonar torg. Okkur finnst það vera mjög vel við hæfi því í þessu samfélagi er verið að blanda saman vísindum,tækni nýsköpun og listum.“ Hann bætir við að „möguleikarnir í þverfræðilegri samvinnu eru óendanlegir.“