Stjórn Neytendasamtakanna hefur sagt upp ráðningarsamningi Ólafs Arnarsonar, formann samtakanna, sem framkvæmdastjóra samtakanna. Þetta var gert fyrir nokkrum vikum. Stjórnin samþykkti vantraust á Ólaf 6. maí síðastliðinn en hann ætlar að sitja áfram sem formaður.
RÚV greindi frá málinu áðan, og nefnir meðal annars að laun Ólafs hafi verið hækkuð um 50 prósent og fjárútlát sem hann stóð fyrir, meðal annars vegna bifreiðar sem hann hafði til umráða, hafi ekki verið samþykkt af stjórninni.
Ólafur hafnar þessu alfarið í samtali við RÚV. „Þetta er alrangt. Ég tók enga ákvörðun um mín laun. Stjórnin ákvað að fela hópi sem í sátu gjaldkeri samtakanna og tveir utanaðkomandi aðilar, einn eldri stjórnarmaður og einn utanaðakomandi sérfræðingur á þessu sviði. Ég hafði ekkert með þetta að gera, sá raunar aldrei þessa tillögu fyrr en eftir að ég hafði skrifað undir ráðningarsamning,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu RÚV.
Ásamt Ólafi sitja í stjórninni; Ása Steinunn Atladóttir, ritari, Gunnar Alexander Ólafsson, gjaldkeri, Stella Hrönn Jóhannsdóttir, Björn Þór Karlsson, Dominique Plédel Jónsson, Fríða Vala Ásbjörnsdóttir, Guðni Gunnarsson, Katrín Þorvaldsdóttir, Ragnar Unnarsson, Sigurður Másson, Stefán Hrafn Jónsson, og Þórey S. Þórisdóttir.